Elliði Vignisson hefur verið ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss og hefur störf þann 9. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt á vef sveitarfélagsins.
Í hópi átján umsækjenda um stöðuna voru fimm fyrrverandi bæjarstjórar, að Elliða meðtöldum. Hann gegndi stöðu bæjarstjóra Vestmannaeyja síðastliðin tólf ár en náði ekki kjöri í sveitarstjórnarkosningunum í vor eftir nokkur átök innan flokksins.
Elliði er 49 ára gamall og hefur auk bæjarstjórastöðunnar setið í bæjarstjórn Vestmannaeyja og ýmsum nefndum og ráðum hjá Vestmannaeyjabæ frá árinu 2003. Áður starfaði Elliði m.a. við kennslu og sálfræðistörf auk þess að sitja í stjórnum fyrirtækja og stofnana.
Elliði lauk MA prófi í sálfræði frá University of Copenhagen árið 1998 auk kennslufræði til kennsluréttinda frá HÍ árið 1996. Auk þess hefur Elliði lagt stund á nám í opinberri stjórnsýslu við HÍ. Elliði er kvæntur Berthu I. Johansen íslenskufræðingi og framhaldsskólakennara og saman eiga þau tvö börn.
