Innlent

Vinnubann vegna skorts á fallvörnum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Vinnueftirlitið hefur bannað niðurrif verkpalla þangað til búið er að tryggja öryggi starfsmanna með fallvörnum.
Vinnueftirlitið hefur bannað niðurrif verkpalla þangað til búið er að tryggja öryggi starfsmanna með fallvörnum. Andri Marinó
Vinnueftirlitið hefur, eftir eftirlitsheimsókn, bannað vinnu við niðurrif á verkpöllum á norðurhlið nýbyggingar að Álalind 14 í Kópavogi vegna skorts á fallvörnum.

Vinnueftirlitið hafði á mánudaginn síðasta samband við stjórnanda ÁF húss þegar starfsmenn áttu eftir að taka niður verkpalla af 6 hæðum.

Stjórnandinn sagðist ætla að ræða við verkstjóra og bæta öryggi starfsmanna. Í eftirlitsskýrslu segir þó að greinilegt væri að starfsmenn hefðu haldið áfram að taka niður palla án fallvarna í ljósi þess að aðeins þrjár hæðir voru með verkpalla þegar Vinnueftirlitið skoðaði aðstæður á ný.

Vinnueftirlitið hefur í ljósi þessa bannað niðurrif verkpalla þangað til búið er að tryggja öryggi starfsmanna með fallvörnum. Þá er farið fram á að stjórnendur geri áhættumat fyrir niðurrif á verkpöllum og skilgreini forvarnir gegn fallhættu.

Á vef Vinnueftirlitsins kemur fram að fallslysum hefur fjölgað síðustu ár hér á landi. Að því er fram kemur í frétt eftirlitsins hefur stofnunin þurft að banna vinnu sem unnin er í hæð nokkrum sinnum það sem af er sumri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×