Margt bendir til þess að brögð hafi verið í tafli þegar fyrirtæki í Suður-Kóreu sagðist hafa fundið skipsflak með allt að 200 tonnum af gulli innanborðs.
Fyrirtækið, Shinil Group, segist hafa borið kennsl á flak rússneska beitiskipsins Dmitri Donskoi sem sökk í Japanshaf fyrir rúmri öld. Í tilkynningunni segir að um borð geti verið allt að 200 tonn af gullpeningum. Skipið sé á rúmlega 400 metra dýpi og unnið sé að því að reyna að bjarga farminum.
Hann myndi í dag vera metinn á meira en þrettán þúsund milljarða íslenskra króna. Það er um það bil sama upphæð og eignir Jeff Bezos, ríkasta manns heims, eru metnar á.
Shinil Group er ekki á hlutabréfamarkaði en á hlut í öðru fyrirtæki, Jeil Steel, sem er skráð í kauphöllinni í Seúl. Eins og gefur að skilja leiddu þessar fréttir til þess að verð hlutabréfanna rauk upp úr öllu valdi í fyrstu. Það er nú hins vegar í frjálsu falli eftir að yfirvöld í Suður-Kóreu hófu rannsókn á því hvort gullfundurinn hafi verið uppspuni til hagnast á hlutabréfaviðskiptum.
Fyrir utan hlutabréfin hefur fyrirtækið verið að selja rafmynt sem það setti nýlega á markað.
Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem þetta sama skip er notað til að vekja áhuga fjárfesta. Árið 2003 sagðist annað fyrirtæki hafa fundið flakið og safnaði töluverðu hlutafé áður en allt rann út í sandinn.
Talsmaður Shinil Group hefur boðað til blaðamannafundar á morgun til að hrekja ásakanir gegn fyrirtækinu.
Það furðulegasta við þetta mál er að enginn hefur fært sannfærandi rök fyrir því af hverju Rússar ættu að hafa drekkhlaðið beitiskip af gulli rétt fyrir orrustu við japanska sjóherinn.
Erlent
Sagðir hafa skáldað sögu um gullskip til að selja rafmynt
Tengdar fréttir
Meintur fundur gullskips veldur usla í Suður-Kóreu
Því hefur verið haldið fram að skipið, Dmitrii Donskoi, hafi verið að flytja 200 tonn af gulli þegar það sökk.