Innlent

Suðurlandsvegur opnaður á ný

Samúel Karl Ólason skrifar
Slysið varð á Suðurlandsvegi við Hólmsá, skammt frá Rauðhólum, skömmu fyrir tólf í dag.
Slysið varð á Suðurlandsvegi við Hólmsá, skammt frá Rauðhólum, skömmu fyrir tólf í dag. Vísir/Jóhann
Uppfært 14:05

Suðurlandsvegur verður senn opnaður á ný fyrir allri umferð samkvæmt tilkynningu frá lögreglu sem barst til fréttastofunnar klukkan tvö. Þar kemur fram að aðeins eigi eftir að hreinsa á vettvangi slyss þar sem fólksbíll og vörubíll skullu saman og það ætti ekki að taka langan tíma.

Slysið varð á Suðurlandsvegi við Hólmsá, skammt frá Rauðhólum, skömmu fyrir tólf í dag. Ökumenn bílanna voru einir og voru þeir fluttir á slysadeild. Frekari upplýsingar um líðan þeirra liggja ekki fyrir.

Veginum var lokað í báðar áttir og myndaðist um tíma mikil umferðarteppa við slysstaðinn. Þá þurfti heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að koma á staðinn þar sem olía lak úr vörubílnum og varð slysið á vatnsverndarsvæði. Flytja þurfti báða bílana á brott og moka þarf olíumenguðum jarðvegi á brott einnig.

Til að koma á betra flæði vegna lokanna á Suðurlandsvegi ákvað lögreglan að færa ytri lokanir til austurs að Bláfjallavegi svo umferð gæti farið þá leið í átt að höfuðborginni og svo að hringtorginu við Norðlingavað svo umferð gæti þá farið til baka og valið þá aðra leið austur fyrir fjall.

Mikil umferðarteppa myndaðist við slysstaðinn.Vísir/Jóhann



Fleiri fréttir

Sjá meira


×