Erlent

26 menn, konur og börn fundust látin í faðmlögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Grísk kona slekkur í glóðum.
Grísk kona slekkur í glóðum. Vísir/AP
Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Grikklandi en minnst 60 eru látnir vegna gífurlegra skógarelda nærri Aþenu, höfuðborg landsins. Meðal hinna látnu eru 26 fullorðnir og börn sem fundust í faðmlögum nokkrum metrum frá sjónum þar sem þau höfðu króast af vegna eldsins. Þá hafa fjölmörg símtöl borist til neyðarlínunnar vegna fólks sem er saknað og er talið líklegt að fjöldi látinna muni hækka.

Hundruð slökkviliðsmanna vinna allan sólarhringinn við slökkvistörf og fregnir hafa borist af fólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín nærri höfuðborginni, Aþenu. Flestir hinna látnu voru í bænum Mati, sem er í um 40 kílómetra fjarlægð frá Aþenu. Lík fólksins fundust í bílum og á heimilum þeirra. Alls hafa rúmlegar 100 manns særst, þar af 11 lífshættulega, en í hópi hinna særðu eru 16 börn.



Nikos Economopoulos, yfirmaður Rauða krossins í Grikklandi, segir að hinir 26 sem fundust á ströndinni hafi reynt að komast undan en ekki tekist það. Uppfært: Í ljós hefur komið að þau fundust á klettasyllu yfir sjónum en ekki á ströndinni.

„Þegar þau sáu endann koma féllust þau í faðma,“ sagði Economopoulos.

Yfirvöld Grikklands hafa biðlað til annarra Evrópuríkja um hjálp. Þá hefur sérstaklega verið beðið um fleiri þyrlur og slökkviliðsmenn.

Þá hafa Bandaríkin verið beðin um að lána Grikkjum eftirlitsdróna. Embættismenn hafa gefið í skyn að eldarnir hafi verið kveiktir vísvitandi af glæpamönnum sem hafi ætlað sér að fara ránshendi um yfirgefin heimili. Fimmtán eldar eru sagðir hafa kviknað á þremur svæðum, á sama tíma. Því vilja þeir fá dróna til að leita uppi „grunnsamlegt athæfi“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×