Erlent

Tveir látnir eftir kúlnahríð í Kanada

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hverfið var rýmt.
Hverfið var rýmt. Vísir/AP
Byssumaður og ung kona létust í skotárás í Toronto í Kanada í nótt. Þrettán eru særðir eftir árásina, þar af er ein ung stúlka talin í lífshættu.

Hlúð var að hinum særðu á vettvangi árásarinnar, sem var framin í hinu svokallaða gríska hverfi borgarinnar. Stór hluti hverfisins hefur verið rýmdur en lögreglumenn eru enn að störfum við rannsókn málsins. Maðurinn er sagður hafa skotið að tveimur veitingahúsum sem voru þéttsetin, enda háannatími þegar árásin átti sér stað.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað vakti fyrir árásarmanninum en vitni lýsa mikilli kúlnahríð. Maðurinn, sem var vopnaður skammbyssu, hafi líklega skotið um 20 kúlum áður en hann féll. Sem stendur er óljóst hvort hann hafi fallið fyrir eigin hendi eða hvort hann hafi verið yfirbugaður.

Fátt hefur verið gefið upp um árásarmanninn. Á myndbandsupptökum sem birst hafa í kanadískum miðlum sést dökkklæddur maður með derhúfu draga upp skammbyssu úr tösku áður en hann ræðst til atlögu. Vitni segja að þau hafi séð mann sem var ljós á hörund og með stutt skegg. Þau hafi þó ekki séð greinilega framan í hann. 

Ekki er útilokað að um skotbardaga hafi verið að ræða, en lögreglan hefur þó ekki minnst á annan byssumann í yfirlýsingum sínum um málið til þessa.

Í samtali við NBC segist borgarstjóri Toronto, John Tory, vera reiður vegna málsins - rétt eins og margir aðrir íbúar borgarinnar. „Það eru alltof margir vopnaðir byssum. Við eigum við byssuvandamál á stríða og ég vona að allt verði gert til að refsa hinum seku,“ segir Tory.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×