Innlent

Líst misjafnlega á nýjan flugvöll í Hvassahrauni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fyrstu hugmyndir að flugvelli í Hvassahrauni gerðu ráð fyrir að hann yrði í byrjun aðallega sniðinn að þörfum innanlandsflugs. Nú er rætt um að hann þjóni bæði innanlands- og millilandaflugi.
Fyrstu hugmyndir að flugvelli í Hvassahrauni gerðu ráð fyrir að hann yrði í byrjun aðallega sniðinn að þörfum innanlandsflugs. Nú er rætt um að hann þjóni bæði innanlands- og millilandaflugi.
Helstu flugrekendum innanlandsflugsins líst misvel á Hvassahraunsflugvöll. Talsmanni Air Iceland finnst sjálfsagt að skoða þennan valkost en talsmanni Flugfélagsins Ernis finnst þetta óraunhæft. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Starfshópur á vegum samgönguráðherra hvetur til þess að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð sem fyrst með það í huga að þar verði bæði innanlands- og millilandaflugvöllur. 

Air Iceland Connect, áður Flugfélag Íslands, er stærsta félagið í innanlandsfluginu. Hvernig líst framkvæmdastjóra þess á Hvassahraun?

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Mér finnst allt í lagi að skoða og fullkanna þann möguleika, hvort að Hvassahraunið geti verið vænlegur kostur. Undanfarnar athuganir, á undanförnum áratugum, hafa ekki leitt það í ljós að annað flugvallarstæði heldur en hér í Vatnsmýrinni væri vænlegt.

En mér finnst sjálfsagt að skoða þennan valkost og sjá hvað kemur út úr þeirri skoðun,“ svarar Árni Gunnarsson. 

Forstjóra Ernis, Herði Guðmundssyni, líst ekkert á hugmyndina.

Hörður Guðmundsson, forstjóri og eigandi Flugfélagsins Ernis.Stöð 2/Björn Sigurðsson.
„Þetta er gífurlegur kostnaður á meðan ekki er hægt setja peninga í samgöngur, bara lágmarks viðbætur og endurbætur í vegakerfinu. Að vera þá að tala um að minnsta kosti hundrað milljarða, eða svo, í nýjan flugvöll einhversstaðar úti í hrauni. Þetta er bara ekki raunhæft. Reykjavíkurflugvöllur á að vera þar sem hann er,“ svarar Hörður. 

Hann hefur sagt það til háborinnar skammar hvernig búið sé að flugfarþegum í Reykjavík. 

Horft úr Hvassahrauni til byggðarinnar á Reykjavíkursvæðinu.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Hugmyndir hafa verið um að reisa nýja innanlandsflugstöð skammt austan við afgreiðslu Air Iceland. En hvað verður nú um þau áform þegar kanna á annað flugvallarstæði? 

„Þó að það væri ákveðið í dag að leggja upp með nýjan flugvöll í Hvassahrauni, þá er það eitthvað sem tekur örugglega áratug, jafnvel lengur,“ svarar Árni og hvetur til þess að bætt verði úr aðstöðu flugfarþega í Reykjavík. 

Flugstöðvarmál Reykjavíkur eru hins vegar í algerri óvissu.

Séð yfir Reykjavíkurflugvöll.Vísir/Vilhelm
„Það gengur frekar hægt. Það eru ýmsar yfirlýsingar um það að menn vilji fara að byggja hér eða gera ýmislegt. En það er takmarkað fjármagn sem fylgir þeim yfirlýsingum," segir Árni. 

„Þannig að við höfum ekki séð neina sérstaka þróun í því. En það er ýmis vinna í gangi við að skoða möguleika en það er engin niðurstaða komin í það, ekki sem ég sé.“ 

-Þannig að það er engin flugstöð að fara að rísa á Reykjavíkurflugvelli á næstu árum? 

„Ég ætla nú ekki að vera svo svartsýnn. En það er ekkert sem liggur fyrir á borðinu í dag að gera,“ svarar Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

 

 


Tengdar fréttir

Nýr flugvöllur í Hvassahrauni gæti tekið við millilandaflugi

Innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni gæti síðar þróast og orðið að alþjóðaflugvelli. Þetta er ein ástæða þess að Rögnunefndin mælir með Hvassahrauni. Ólíklegt er að samstaða náist um tillögu nefndarinnar á Alþingi.

Hörður kaupir 32 sæta hraðfleyga skrúfuþotu

Flugfélagið Ernir hefur keypt 32 sæta hraðfleyga skrúfuþotu. Eigandinn, Hörður Guðmundsson, stefnir á tvær til þrjár slíkar, bæði til nota á innanlandsleiðum og í leiguflugi til nágrannalanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×