Innlent

Vara við ferðalögum til eyja í Indónesíu vegna skjálfta

Atli Ísleifsson skrifar
Ráðuneytið gefur sjaldan út ferðaviðvaranir en hefur þess í stað bent á viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Bretlands.
Ráðuneytið gefur sjaldan út ferðaviðvaranir en hefur þess í stað bent á viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Bretlands. Vísir/E.Ól
Utanríkisráðuneytið hefur bent íslenskum ferðalöngum á að stjórnvöld í nágrannaríkjum Íslands vari nú sérstaklega við ferðum til Gili-eyja og norðvestanverðrar Lombok-eyju í Indónesíu vegna mannskæðra skjálfta á svæðinu.

Ráðuneytið gefur sjaldan út ferðaviðvaranir en hefur þess í stað bent á viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Bretlands. Þau ríki séu í flestum tilfellum með starfsemi á viðkomandi stöðum og geti því gefið mun ítarlegri og betri viðvaranir.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að nokkuð hafi borið á því að fólk hafi haft samband við borgarþjónustu ráðuneytisins að undanförnu vegna jarðskjálftanna í Indónesíu, meðal annars til að athuga hvort óhætt sé að ferðast til Balí og nálægra eyja.  

„Hvað Indónesíu varðar vara stjórnvöld á Norðurlöndum og Bretlandi um þessar mundir sérstaklega við ferðum til Gili-eyja og norðvestanverðrar Lombok-eyju. Þessi svæði, sem eru austur af Balí, urðu illa úti í stóra skjálftanum síðastliðna helgi. Þar fórust á þriðja hundrað manns og mikil eyðilegging varð. Í morgun varð svo stór eftirskjálfti á Lombok. Slíkum skjálftum getur fylgt mikil hætta vegna þess að byggingar, vegir og aðrir innviðir eru veikir fyrir eftir stóru skjálftana,“ segir í fréttinni.


Tengdar fréttir

Enn einn skjálftinn á Lombok

Þriðji stóri jarðskjálftinn á rúmri viku reið yfir ferðamannaeyjuna Lombok í Indónesíu í morgun.

347 látnir í Indonesíu

Staðfest dánartala í jarðskjálfta á Lombok eyju í Indonesíu er 374. 1.447 meiddust og 165.000 flúðu heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×