Erlent

Fjöldi barna féll í loftárás á rútu í Jemen

Kjartan Kjartansson skrifar
Brynvagn stjórnarhers Jemens í aðgerðum gegn Houthi-uppreisnarmönnum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Brynvagn stjórnarhers Jemens í aðgerðum gegn Houthi-uppreisnarmönnum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA
Tugir manna, þar á meðal fjöldi barna, féllu eða særðust í loftárás bandamanna Sáda á rútu í norðanverðu Jemen í dag. Rauði krossinn segir að meirihluta þeirra sem létust hafi verið yngri en tíu ára.

Rútan var á leiðinni í gegnum Dahyan-markaðinn í Saada-héraði sem uppreisnarmenn úr röðum Houthi-manna stjórna. Heilbrigðisráðuneytið á svæði uppreisnarmanna segir að 43 að minnsta kosti hafi fallið í árásinni.

Bandalagsherinn sem Sádí-Arabía fer fyrir og styður ríkisstjórn Jemens segir að árásin hafi verið lögmæt, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hún hafi verið í samræmi við alþjóða- og mannúðarlög. Bandamennirnir hafa fullyrt að þeir beini ekki spjótum sínum að óbreyttum borgurum en mannréttindasamtök hafa sakað þá um að varpa sprengjum á markaði, skóla, sjúkrahús og íbúðahverfi síðustu þrjú árin.

Tveir af hverjum þremur af þeim tæplega tíu þúsund manns sem hafa fallið frá því að Houthi-menn sölsuðu undir sig stóran hluta norðurhluta Jemens hafa verið óbreyttir borgarar.

Sádí-Arabía hóf afskipti af átökunum í Jemen árið 2015.


Tengdar fréttir

Forsaga hörmunganna í Jemen - fyrri hluti

Reglulega berast Íslendingum samhengislitlar fréttir af neyð og skelfingum í Jemen. Þar ríkir stríðsástand og hungursneyð sem gerir landið að versta hörmungasvæði heims um þessar mundir að mati Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×