Viðskipti innlent

Arion banki stefnir á að selja Valitor samstæðuna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka.
Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka.
Arion banki hefur nú til skoðunar að selja greiðslumiðlunar- og færsluhirðingarfyrirtækið Valitor en félagið hefur vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum. Um 400 manns vinna hjá Valitor og fjölgaði stöðugildum um 27 prósent í fyrra.

Valitor samstæðan (Valitor Holding) hefur faxið hratt að undanförnu ekki síst með samrunum og yfirtökum. Valitor keypti á síðasta ári tvö félög, IPS - International Payment Services Ltd. og Chip and Pin Solutions Ltd. Tilgangur kaupanna var að styrkja markaðsstöðu Valitor í Bretlandi.

Valitor samstæðan er að fullu í eigu Arion banka. Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka segir að bankinn hafi nú til skoðunar að selja að fullu eignarhlut sinn í félaginu.

„Við höfum auðvitað hugsað um hvort að bankinn sé besti eigandinn á þetta umsvifamiklu félagi í erlendri greiðslumiðlunarstarfsemi. Núna höfum við fengið ráðgjafa til að hjálpa okkur að komast að strategískri niðurstöðu. Ein ekki ólíkleg niðurstaða er að bankinn selji sig niður í fyrirtækinu að miklu eða öllu leyti,“ segir Höskuldur. 

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors. Vöxtur Valitor samstæðunnar hefur verið mjög hraður að unanförnu. Ekki síst með samrunum og yfirtökum. Milli 2. ársfjórðungs 2017 og 2. ársfjórðungs 2018 fjölgaði stöðugildum hjá Valitor um 27 prósent en inni í þeirri tölu eru starfsmenn fyrirtækja sem Valitor tók yfir á tímabilinu. Vísir/Stefán
Höskuldur segir að starfsemi Valitor sé orðin það umfangsmikil að það sé ekki víst að það henti Arion banka, sem einbeitir sér að bankamarkaði á Íslandi, að eiga alþjóðlegt greiðslumiðlunarfyrirtæki.

„Það vinna tæplega 400 manns hjá Valitor en um 800 manns hjá bankanum. Valitor er mest með starfsemi í Bretlandi og í Skandinavíu en ekki hér á Íslandi og þetta er ekki áhættulaus rekstur,“ segir Höskuldur. Hann segir að niðurstaðan varðandi söluna gæti legið fyrir strax í haust.

Verðmæti Valitor Holding er ekki sundurliðað í ársreikningi Arion banka en bókfært eigið fé Valitor samstæðunnar var 16,2 milljarðar króna í lok árs 2017 samkvæmt ársreikningi félagsins. Verðmæti félagsins er þó háð niðurstöðu í máli sem félögin DataCell og Sunshine Press Production, rekstrarfélag Wikileaks, höfðuðu á hendur Valitor.

Fyrir liggur niðurstaða matsmanna um 3,2 milljarða króna tjón félaganna og hinn 17. júlí síðastliðinn staðfesti Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hafnað var kröfu Valitors um að dómkveðja nýja matsmenn til að meta tjónið. Mál vegna skaðabótakröfu félaganna tveggja á hendur Valitor verður rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×