Erlent

Hitamet fyrir Evrópu gæti fallið í hitabylgjunni á Íberíuskaga

Kjartan Kjartansson skrifar
Hitinn fer að líkindum vel yfir 40°C víða um Spán og Portúgal á næstu dögum.
Hitinn fer að líkindum vel yfir 40°C víða um Spán og Portúgal á næstu dögum. Vísir/EPA
Veðurfræðingar telja að hitamet fyrir Evrópu gæti verið slegið á næstu dögum í hitabylgju sem gengur yfir Spán og Portúgal. Núverandi met er 48°C sem mældust í Aþenu árið 1977.

Hlýtt loft sunnan frá Afríku berst nú yfir Íberíuskagann og er búist við því að hitinn geti farið vel yfir 40 gráður þar á næstunni. Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC gæti landsmet fallið og jafnvel evrópska hitametið. Á Spáni var met sett í júlí í fyrra þegar 47,3°C mældust. Í Portúgal er metið 47,4°C.

Viðvörun hefur verið gefin út á Spáni vegna hitans en veðurstofan þar segir að hitabylgjan verði sérstaklega sterk og langvarandi á suðvestanverðu landinu. Heilbrigðisyfirvöld hafa varað fólk við að búa sig undir hitann sem geti verið hættulegur. Í Portúgal búast veðurfræðingar við því að hitinn fari ekki undir 25-30°C á næturnar.

Hitabylgja hefur þjakað Evrópubúa undanfarnar vikur og mánuði, þar á meðal Skandínava. Skógareldar hafa geisað í Svíþjóð og í Grikklandi hafa fleiri en níutíu manns farist í eldum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×