Innlent

Áfram í haldi vegna stunguárásar: Rannsaka hvort um tilraun til manndráps hafi verið að ræða

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Akranesi.
Frá Akranesi. Vísir/GVA
Maðurinn sem grunaður er um að hafa stungið annan mann á Akranesi í hálsinn hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. Greint var fyrst frá þessu á vef mbl.is. Var maðurinn leiddur fyrir dómara í Borgarnesi í morgun þar sem ákveðið var að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna í fjórar vikur, eða til 29. ágúst næstkomandi.

Árásin átti sér stað aðfaranótt 23. júlí síðastliðinn. Sá sem fyrir árásinni varð var í lífshættu eftir hana en komst fljótt á bataveg eftir að hafa verið færður á sjúkrahús.

Jón Haukur Hauksson, staðgengill lögreglustjórans á Vesturlandi, segir í samtali við Vísi að rannsókn málsins miði vel.

„Teknar hafa verið skýrslur af flestum þeim sem þarf að ná í en ýmis önnur rannsóknarvinna stendur enn yfir,“ segir Jón Haukur.

Hann segir að verið sé að greina lífsýni og það taki ákveðinn tíma. Síðan þurfi að yfirfæra nákvæmlega hættueiginleika árásarinnar, meðal annars hvort eigi frekar við í málinu að um sé að ræða tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás.

Jón Haukur segir játningu ekki liggja fyrir í málinu en spurður hvort maðurinn sem er í haldi hafi tekið afstöðu til sektar segir Jón Haukur manninn hafa mótmælt gæsluvarðhaldsúrskurðinum og kært hann til Landsréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×