Erlent

Rekstraraðilar brúarinnar segja stjórnvöld fara fram úr sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 39 dóu þegar brúin hrundi. Sextán slösuðust og þar af eru níu í alvarlegu ástandi.
Minnst 39 dóu þegar brúin hrundi. Sextán slösuðust og þar af eru níu í alvarlegu ástandi. Vísir/AP
Forsvarsmenn fyrirtækisins Atlantia, sem er móðurfélag Autostrade, segja að ítalska ríkið geti ekki rift samningum við fyrirtækið án þess að sanna að fyrirtækið beri ábyrgð á hruni brúarinnar í Genúa. Autostrade er rekstraraðili brúarinnar og aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu sakaði fyrirtækið um vanrækslu í gær. Hann sagði að ríkið myndi rifta samningum við fyrirtækið og sekta það um 150 milljónir evra, um 1,5 milljarð íslenskra króna.



„Við leyfum rannsakendum að klára sín störf en við getum ekki beðið eftir dómskerfinu,“ sagði Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, við AFP. Hann sagði hlutverk ríkisstjórnarinnar að tryggja öryggi íbúa og það væri hafið yfir allan vafa að Autostrade hefði átt að tryggja gott ástand brúarinnar og öryggi allra þeirra sem fóru yfir hana.

Virði hlutabréfa Atlantia hefur hríðfallið í kjölfar slyssins eða um fjórðung.



Í tilkynningu frá Atlantia í morgun segir að sú yfirlýsing hefði verið gefin út áður en búið væri að komast að því af hverju brúin hrundi. Fyrirtækið segir að ríkið muni þurfa að borga upp samningana ef til standi að rifta þeim.



Minnst 39 dóu þegar brúin hrundi. Sextán slösuðust og þar af eru níu í alvarlegu ástandi, samkvæmt ítölsku fréttaveitunni ANSA.



Brúin sem um ræðir var byggð á sjöunda áratug síðustu aldar. Hins vegar voru gerðar endurbætur á henni árið 2016. Þá stóð yfir vinna við að styrkja brúna þegar hún hrundi. Brúin hrundi á hús, vegi og lestarteina. Rúmlega 400 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna áhyggja um að frekari hlutar brúarinnar muni hrynja.


Tengdar fréttir

Lýsir yfir neyðarástandi eftir brúarhrunið

Forsætisráðherra Ítalíu hefur lýst yfir tólf mánaða neyðarástandi í Liguria-héraði í kjölfar þess 39 manns hið minnsta fórust þegar brú hrundi í borginni Genúa.

Saka rekstraraðila brúarinnar um vanrækslu

Ríkisstjórn Ítalíu ætlar að rifta samningi sínum við fyrirtækið Autostrade, sem meðal annars hefur séð um rekstur brúarinnar sem hrundi í Genúa í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×