Löng bílaröð hefur myndast við norðurmunna Hvalfjarðarganga og mega ferðalangar á suðurleið búast við því að bíða lengi eftir að komast í gegnum göngin.
Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni gjaldskýlis við Hvalfjarðargöng náði strollan að Grundartanga á áttunda tímanum í kvöld. Gera má ráð fyrir að umferðarþunginn skrifist að miklu leyti á Fiskidaginn mikla á Dalvík en svo virðist sem gestir hans séu afar margir í heimferðarhugleiðingum nú. Um 30 þúsund manns eru taldir hafa sótt hátíðina á Dalvík um helgina.
Ferðalangar sem Vísir náði tali af í kvöld á áttunda tímanum höfðu beðið í 25 mínútur eftir að komast inn í göngin.
Búist er við því að ástandið batni um klukkan 21 í kvöld og segir starfsmaður í gjaldskýli að umferðin gangi í raun ótrúlega hratt miðað við fjölda bifreiða. Þá beinir starfsmaður því til þeirra vegfarenda sem tök hafi á að sneiða hjá göngunum og keyra Hvalfjörðinnn í kvöld.
Innlent