Skoðun

Sjálfsögð mannréttindi

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Dags daglega hugsum við kannski ekki mikið um mannréttindi enda búum við í samfélagi þar sem mannréttindi eru ágætlega tryggð. Ísland er í fremstu röð þegar kemur að mannréttindum og við getum verið stolt af því samfélagi sem við höfum byggt, samfélag sem grundvallað er á mannréttindum, lögum og rétti.

En þótt við göngum að þessum mannréttindum sem vísum þá lýkur aldrei baráttunni og varðstöðunni fyrir þau. Gleðigangan er frábær leið til að fagna þeim mannréttindum sem áunnist hafa og um leið undirstrikar hún að baráttunni fyrir þeim lýkur aldrei. Það er ekki annað hægt en að vera glöð og stolt yfir því hversu samfélagi okkar hefur miðað í átt til skilnings á þeirri einföldu reglu að kynhneigð hvers og eins er einkamál sem hvorki ríkisvaldi né nokkrum öðrum kemur við.

Nokkuð er síðan mismunun í lögum vegna samkynhneigðar var afnumin og hjónabönd samkynhneigðra eru til jafns við önnur hjónabönd. Þetta er reyndar svo sjálfsagt að það á ekki að þurfa að tala um þetta, en það eru ekki margir áratugir síðan staðan var allt önnur.

En það er ekki nóg að jöfn lagaleg staða fólks óháð kynhvöt hafi áunnist. Viðurkenning samfélagsins, skilningur og víðsýni veitir lögunum innihald og skapar raunverulegt jafnrétti og raunverulegt frelsi.

Við skulum nefnilega muna að mannrétti eins eru um leið mannréttindi allra, ábyrgðin okkar á því að sækja þau og verja er því sameiginleg, rétt eins og ávinningurinn sem felst í því að lifa og búa í sanngjörnu, víðsýnu og umburðarlyndu þjóðfélagi – göngum saman fyrir okkur öll.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×