Sóknarbörnin taka hins ekki í mál að moskan verði rifin niður. Haft er eftir einum múslima á vef breska ríkisútvarpsins að það sé ekki fræðilegur möguleiki að hann muni leyfa „stjórnvöldum að snerta moskuna.“
Alls búa um 23 milljónir múslima í Kína og hefur Íslam verið fyrirferðamikil í Ningxia-héraði svo öldum skiptir. Mannréttindasamtök greina nú hins vegar frá því að múslimski minnihluti þjóðarinnar mæti sífellt meiri fordómum í Kína.
Deilur múslimana og stjórnvalda í Ningxia má rekja tilkynningar þess efnis að moskan skyldi rifin vegna brota á byggingarreglugerðum. Tilkynningin fór á mikið flug meðal múslima í borginni sem brugðust ókvæða við fyrirhuguðu niðurrifi. Margir eru sagðir hafa spurt sig hvers vegna ekki var sett út á leyfisskortinn fyrr í framkvæmdaferlinu, en bygging moskunnar tók rúmlega tvö ár.

Kínversk lög kveða á um trúfrelsi í landinu en mannréttindahópar segja að því sé alla jafna ekki fylgt eftir. Til að mynda hafi kristnir söfnuðir í Kína reglulega þurft að fjarlæga krossa af safnaðarheimilum sínum á þeim forsendum að þeir voru sagðir stangast á við deiliskipulagið. Kínversk stjórnvöld eru sögð óttast áhrif erlendra trúarhópa í landinu og hafa því útvegað þeim lítið svigrúm til trúarathafna sinna.
Þá hafa borist fregnir af því að þarlendum múslimum hafi verið refsað fyrir að klæðast slæðum utandyra, sem og fyrir að hafa neitað að fylgjast með útsendingum ríkisútvarps og sjónvarps. Þá hefur þúsundum múslima verið skipað að sækja „fræðslubúðir,“ þar sem þeim er gert að læra „siði og venjur kínversku þjóðarinnar.“
Niðurrif moskunnar er því sögð, í ljósi fyrri aðgerða kínverskra stjórnvalda, vera til marks um að embættismenn séu farnir að færa sig ennfrekar upp á skaftið í baráttu sinni gegn minnihlutahópum í landinu.