Deilabílaþjónustan Uber mun í framtíðinni leggja ríkari áherslu á útleigu reið- og rafhjóla, þrátt fyrir það kunni að bitna á tekjum fyrirtækisins.
Forstjóri Uber, Dara Khosrowshahi, segir að slíkir einstaklingsfararskjótar henti betur til fólksflutninga í stórborgum heimsins. Hann telur jafnframt að viðskiptavinir Uber muni taka fleiri, styttri ferðir í framtíðinni.
„Á háannatíma er mjög óhagkvæmt að nota eins tonna járnhlunk til að flytja einn einstakling 10 húsaraðir,“ er haft eftir Khosrowshahi á vef breska ríkisútvarpsins.
Hann bætir við að þó svo að þessi ákvörðun kunni að hafa neikvæð fjárhagsleg áhrif á fyrirtækið á næstu misserum þá sé þetta engu að síður í takti við framtíðarsýn Uber. Þar að auki muni bílstjórar fyrirtækisins njóta góðs af breytingunum, enda muni lengri bílferðum fjölga á kostnað þeirra styttri.
Fyrirtækið hefur á síðustu mánuðum fjárfest í fjölda reiðhjólaleiga. Nú er svo komið að hægt er að leigja rafhjól hjá Uber í 8 borgum í Bandaríkjunum, þeirra á meðal New York og Washington, og til stendur að opna rafhjólaleigu í Berlín á næstunni.
Uber tapaði rúmlega 4,5 milljörðum bandaríkjadala á síðasta ári, rúmlega 450 milljörðum íslenskra króna. Stjórnendur fyrirtækisins eru því undir miklum þrýstingi að laga fjárhag félagsins, en til stendur að setja Uber á hlutabréfamarkað á komandi mánuðum.
Uber boðar stefnubreytingu

Tengdar fréttir

Uber stöðvar þróun sjálfkeyrandi vörubíla
Deilibílaþjónustan Uber mun skjóta þróun sinni á sjálfkeyrandi vöruflutningabílum á frest til að til að fullkomna tæknina í fólksbílum.

Deilibílaþjónustur fengu kjaftshögg í New York
New York varð í gær fyrsta bandaríska stórborgin til að takmarka fjölda bifreiða á vegum deilibílaþjónusta. Fyrirtækjunum verður jafnframt skylt að tryggja ökumönnum sínum lágmarkslaun.