Erlent

Páfi lofar því að kirkjan hylmi ekki lengur yfir með níðingum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frans páfi stílaði bréf sitt á allt kaþólskt fólk, um 1,2 milljarða manna. Það er í fyrsta skipti sem páfi tekur á kynferðisbrotum innan kirkjunnar við allt kaþólskt fólk.
Frans páfi stílaði bréf sitt á allt kaþólskt fólk, um 1,2 milljarða manna. Það er í fyrsta skipti sem páfi tekur á kynferðisbrotum innan kirkjunnar við allt kaþólskt fólk. Vísir/EPA
Kynferðisbrot kaþólskra presta hafa lengi verið hunsuð eða þögguð niður og uppræta þarf þá menningu. Þetta kemur fram í bréfi sem Frans páfi hefur skrifað kaþólsku fólki um allan heim. Þar lofar páfi því að kirkjan muni ekki lengur hylma yfir misnotkun innan hennar.

Ásakanir um áralanga misnotkun kirkjunnar manna á sóknarbörnum hafa komið fram í fjölda landa. Þannig birti ákærudómstóll í Bandaríkjunum nýlega gögn um umfangsmikla kynferðislega misnotkun presta á börnum í Pennsylvaníuríki og yfirhylmingu yfirmanna kirkjunnar á henni.

Bréf páfa til kaþólsks fólks er sagt fordæmalaust. Fyrri bréf páfa sem varða kynferðisbrot innan kirkjunnar hafa fram að þessu aðeins farið til biskupa og sóknarbarna í einstökum ríkjum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Bréfið var stílað á „guðsfólk“.

„Við höfum gert okkur grein fyrir því að þessi sár hverfa aldrei og að þau krefjast þess að við fordæmum þessi voðaverk af hörku og tökum saman höndum um að uppræta þessa dauðamenningu,“ skrifar páfi sem heitir því að kirkjan muni koma í veg fyrir frekari misnotkun og yfirhylmingu.

Varðandi brotin í Pennsylvaníu sagði páfi að þau tilheyrðu flest fortíðinni. Ljóst væri þó að þau hafi lengi verið „hunsuð, haldið leyndum eða þau þögguð niður“. Í gögnum ákærudómstólsins kom fram að 301 kaþólskur prestur hefði misnotað þúsundir barna kynferðislega undanfarin sjötíu ár.

Páfi er á leið í opinbera heimsókn til Írlands en þar hefur mikil umræða um brot kaþólskra presta farið fram undanfarin ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×