Viðskipti innlent

Hagnaður Íslandshótela eykst

Birgir Olgeirsson skrifar
Aukinn hagnað má rekja til um 600 m.kr. veltuaukningar á milli ára
Aukinn hagnað má rekja til um 600 m.kr. veltuaukningar á milli ára Vísir/Pjetur
Íslandshótel skilaði 293 m.kr. hagnaði af rekstri samstæðunnar fyrstu 6 mánuði ársins en fyrir sama tímabil í fyrra var hagnaðurinn 53 m.kr. Aukinn hagnað má rekja til um 600 m.kr. veltuaukningar á milli ára. Félagið opnaði nýtt og glæsilegt hótel, Fosshótel Mývatn í júlí 2017, tekinn var í notkun nýr salur á Grand Hótel, auk þess var herbergjum fjölgað á Fosshótel Núpum úr 60 í 99 herbergi.

Tekjur félagsins jukust um tæpar 600 milljónir króna milli ára og hækkuðu úr 4,6 milljörðum í 5,2 milljarða króna. EBITDA félagsins var 1,2 milljarðar eftir 6 mánuði en tæpur milljarður fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2017.

Heildar virði eigna félagsins nam 38,1 milljörðum króna í 30. júní 2018 og er um óverulega breytingu að ræða frá áramótum. Tekjuberandi fasteignir félagsins voru endurmetnar í árslok 2017 í samræmi við IFRS reikningsskilastaðla.

Íslandshótel reisir nú nýtt hótel í hjarta höfuðborgarinnar við Lækjargötu, hótelið verður allt hið glæsilegasta, um er ræða fjögurra stjörnu hótel með 129 herbergjum, veitingastað og kaffihúsi. Fornleifarannsóknir á vegum Minjastofnunar Íslands og Fornleifastofnunar Íslands hafa leitt í ljós mannvirki frá 10. öld á þessum reit og munu gestir hótelsins því geta skyggnst inn í fortíðina á meðan á dvöl þeirra stendur. Fyrirhugað er að vera með sýningu á fornminjum og menningartengdum munum á 1. hæð hótelsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×