Tillaga borgarfulltrúa meirihlutans í borgarstjórn um að fela skóla- og frístundasviði að hefja undirbúning á tilraunaverkefni um að einn leikskóli í hverju hverfi skuli vera opinn allt sumarið árið 2019 var samþykkt í kvöld með 22 atkvæðum. Einn borgarfulltrúi sat hjá.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, kynnti tillöguna og sagði hana eiga sér stoð í samstarfssáttmála meirihlutans hjá Reykjavíkurborg. Í greinargerð með tillögunni segir að tilraunaverkefnið líkist því sem tíðkist í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu á borð við Mosfellsbæ og Garðabæ en þar sameina leikskólarnir starfsemi sína í eina starfsstöð yfir sumartímann.
Borgarfulltrúar voru flestir sammála um að hér væri um jákvætt skref að ræða enda ættu ekki allir foreldrar kost á því að taka sér frí á þeim tíma sem leikskólarnir eru lokaðir.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, tók fram að hún væri ekki á móti tillögunni en hefði þó áhyggjur af því hvaða áhrif breytingin og aukin opnun hefði á börn og starfsfólk leikskólanna.
Áfram verður miðað við þá reglu að börnin fái samfellt sumarfrí í að lágmarki 4 vikur en tillagan miðar að auknu valfrelsi foreldra til að skipuleggja sjálfir sumarfrí fjölskyldunnar.
Hér er hægt að lesa sér nánar til um tillögu meirihlutans í borgarstjórn um sumaropnun leikskóla.
