Innlent

Stjórn FKA lýsir yfir vanþóknun á meðhöndlun máls Áslaugar

Andri Eysteinsson skrifar
Stjórn FKA fundaði um uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur í dag.
Stjórn FKA fundaði um uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur í dag. fréttablaðið/GVA/ERNIR
Stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) fundaði í dag um uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fráfarandi forstöðumanns einstaklingsmarkaðar hjá Orku Náttúrunnar (ON).

Í tilkynningu frá FKA lýsir stjórn félagsins vanþóknun á því hvernig staðið hefur verið að málinu innan móðurfyrirtækis ON, Orkuveitu Reykjavíkur.

Í yfirlýsingu stjórnar segir „Það er algjörlega óviðunandi eftir alla þá umræðu sem orðið hefur í kjölfar #MeToo byltingarinnar að ekki sé staðið faglega að málum vegna kynbundins ofbeldis og áreitni.“

„Í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað síðustu daga skorar stjórn FKA á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að rannsaka aðkomu forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur að máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og fyrrverandi forstjóra ON til hlítar. Einnig er mikilvægt að kanna stöðu félagslegra- og andlegra þátta meðal starfsfólks beggja fyrirtækjanna til að unnt sé að grípa til nauðsynlegra aðgerða innan fyrirtækjanna“

Stjórn FKA segist vilja með yfirlýsingunni standa upp fyrir þeim kjarki sem Áslaug sýndi með því að samþykkja ekki að málið sé þaggað niður. Málinu sé hvergi nærri lokið og ekki verður gefið eftir kröfunni um breytingar á viðhorfum í atvinnulífinu.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir stjórnarkona í FKA segir stjórnina ætla að standa með Áslaugu Thelmu í þessu máli, ekki síst til að sýna öllum konum sem eru í sömu sporum að þær séu ekki einar.

Að lokum vill Stjórn FKA hvetja alla þá sem telja vinnuumhverfi vera óheilbrigt vegna kynbundinnar- eða kynferðislegar áreitni að láta í sér heyra. Ef viðkomandi treystir sér ekki til þess innan vinnustaðarins getur hann komið nafnlausri ábendingu til Vinnueftirlitsins sem metur tilefni til rannsóknar á vinnustaðnum.




Tengdar fréttir

Bjarni ætlar ekki að tjá sig

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitur Reykjavíkur, ætlar að svo stöddu ekki að tjá sig opinberlega um starfslok starfsfólks hjá Orkuveitunni eða dótturfélaginu, Orku náttúrunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×