Skoðun

Nei – verktakar ráða ekki ferðinni

Hjálmar Sveinsson skrifar
Í leiðara Fréttablaðsins í síðustu viku sagði Kolbrún Bergþórsdóttir að meirihluti borgarstjórnar hefði svifið um í „hálfgerðu svefnástandi“ og gefið verktökum lausan tauminn. Það er fjarri sanni. Tilefni leiðarans virðist vera frétt um að borgaryfirvöld segi nú stopp við meiri uppbyggingu hótela í miðborginni. Kolbrún fagnar því en telur að stoppið sé of seint á ferðinni. Um það má deila en borgaryfirvöld hafa verið glaðvakandi undanfarin misseri.

Sannleikurinn er sá að hótelstoppið í Kvosinni er nokkurra ára gamalt. Sama er að segja um miklar skorður sem hafa verið reistar við byggingu hótela og stærri gististaða í íbúðarhverfum. Hvort tveggja hefur gert borgaryfirvöldum kleift að neita mörgum umsækjendum um hótelleyfi síðustu árin.

Ein nýjung í Aðalskipulagi Reykjavíkur, samþykkt 2014, er ákvæði sem takmarkar verulega rekstur hótela og stærri gististaða í íbúðarhverfum. Ári síðar var tillagan um kvóta á hóteluppbyggingu í Kvosinni samþykkt. Hótelstarfsemi má ekki vera á meira en 23 prósentum byggðra fermetra. Slík kvótasetning mun vera sjaldgæf í borgum en hún hefur haft tilætluð áhrif í Reykjavík. Hún kemur til að mynda í veg fyrir að hinu mikla húsnæði Landsbankans við Austurstræti og Hafnarstræti verði breytt í hótel þegar Landsbankinn flytur í nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfnina.

Hótelkvótanum hefur verið mótmælt harðlega og lögmæti hans dregið í efa. En borgin hefur ekki gefið sig og bætt um betur. Nú er kominn sambærilegur kvóti við Laugaveg og Hverfisgötu. Stefna borgarinnar er að hóteluppbygging eigi sér stað austar í borginni.

Í byrjun þessa árs var svo samþykkt í borgarstjórn aðalskipulagsbreyting þannig að nú er lagt blátt bann við því að breyta íbúðar- eða skrifstofuhúsnæði í miðborginni í hótel. En auðvitað eru margir ferðamenn í miðborginni. Sem betur fer. Hún hefur að mínu mati sjaldan verið líflegri og skemmtilegri en nú.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×