Skoðun

Ísland tapar stigum

Þorvaldur Gylfason skrifar
Reykjavík – Lýðræði á nú undir högg að sækja víða um heim, einnig í nálægum löndum þar sem sízt skyldi.  Ógnin blasir við í Bandaríkjunum og einnig sums staðar í Evrópu.  Þetta gerðist ekki í einu vetfangi heldur smám saman.  Stjórnmálamenn og flokkar daðra nú sumir opinskátt við fasisma og dásama einræðisseggi.  Sums staðar hafa slíkir menn og flokkar náð völdum, t.d. í Póllandi og Ungverjalandi.  Annars staðar sækja þeir í sig veðrið í stjórnarandstöðu, jafnvel í Svíþjóð.  Sagnfræðingar og stjórnmálafræðingar í Bandaríkjunum senda frá sér bók eftir bók til að vara fólk við. Hér eru fjórar slíkar frá 2014-2018:



Finnar og Norðmenn með fullt hús stiga

Mörgum kann að bregða við vitnisburði framangreindra höfunda og annarra um hnignun lýðræðis í Bandaríkjunum sem margir hafa litið á sem forusturíki hins frjálsa heims. Skýrslur Freedom House í Bandaríkjunum, óháðrar stofnunar sem hefur fylgzt með lýðræði um allan heim og kortlagt það samfleytt frá 1972, sýna þó að þessi hnignun hefur átt sér aðdraganda.  Frá aldamótum hefur Bandaríkin vantað talsvert upp á fullt hús stiga (100) á lýðræðiskvarða Freedom House þar eð talsvert skortir þar á óskoruð stjórnmála- og borgararéttindi.  Frá 2010 til 2018 lækkaði lýðræðiseinkunn Bandaríkjanna úr 94 í 86 (Pólland fær 85).  Noregur hefur alltaf fengið fullt hús stiga, 100, og einnig Finnland frá 2005.  Svíar duttu niður í 99 stig 2014 og 2015 vegna óblíðrar meðferðar á flóttamönnum.  Danir hafa nú 97 stig af sömu ástæðu og Hollendingar 99.  Ástralía og Nýja-Sjáland hafa 98 stig þar eð frumbyggjar landanna þykja ekki búa við sömu réttindi og aðrir borgarar.

Fimm ástæður

Ísland hafði fullt hús stiga hjá Freedom House 2004-2009 og datt af ótilgreindum ástæðum niður í 99 stig eftir hrun 2010-2012, fékk síðan aftur 100 stig 2013, 2014 og 2016 og hefur síðan þá fallið niður í 19. sæti listans með 95 stig.  Þau hjá Freedom House tilgreina fimm ástæður þess að Ísland tapar stigum:



  • Of náið samband stjórnmálamanna við ýmsa viðskiptahagsmuni.
  • Ónógar varnir gegn spillingu.
  • Ónógt gegnsæi (formaður Sjálfstæðisflokksins er nefndur sérstaklega í skýrslunni).
  • Ónógt frelsi fjölmiðla (lögbannið gegn Stundinni er nefnt sérstaklega og formaður Sjálfstæðisflokksins einnig í því sambandi).
  • Ill meðferð á flóttamönnum.


Stjórnarskrá í salti

Til samanburðar hafa Finnland, Noregur og Svíþjóð 100 stig á lýðræðislista Freedom House.  Holland og Kanada hafa 99 stig, Lúxemborg og Úrúgvæ 98 eins og Ástralía og Nýja-Sjáland.  Danmörk, Portúgal og San Marínó hafa 97 stig, Andorra, Barbados, Írland, Japan og Sviss 96 og Belgía og Ísland 95.

Ætla má að Ísland færist lengra niður listann þegar þau hjá Freedom House kynnast Alþingi betur og komast að því að þingið hefur m.a. látið undir höfuð leggjast að rannsaka einkavæðingu bankanna og staðfesta nýju stjórnarskrána sem tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi hélt 2012. Fólkið í landinu þarf að vakna – aftur! – og taka í taumana.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×