Svíþjóð kastaði frá sér tveggja marka forystu gegn Tyrkjum á heimavelli í B-deild Þjóðadeildarinnar en liðin leika í riðli tvö.
Svíar, sem heilluðu almúgann með sterkum varnarleik á HM í sumar, komust í 2-0 með mörkum Isaac Thelin og Viktor Classon. Þannig stóðu leikar eftir 49 mínútur.
Tveimur mínútum síðar minnkaði Hakan Calhanoglu muninn og á 88. mínútu jafnaði Emre Akbaba metin. Akbaba var ekki hættur því hann skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.
Lokatölur 3-2 sigur Tyrkja sem eru með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina í Þjóðadeildinni en Tyrkir töpuðu 2-1 fyrir Rússlandi í fyrstu umferðinni.
Gunnar Nielsson spilaði allan tímann í marki Færeyja sem tapaði 2-0 fyrir Kósóvó í D-deildinni. Brandur Olsen spilaði í 62 mínútur og Kaj Leó í Bartalsstovu í 79 mínútu en Færeyjar eru með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina.
Skotland vann góðan 2-0 sigur á Albaníu í C-deildinni og Svartfjallaland vann 2-0 sigur á Litháen einnig í C-deildinni. Serbía og Rúmenía gerðu 2-2 janftefli.
Malta og Azeríbaidjan annars vegar og Andorra og Kazakstan hins vegar gerðu 1-1 jafntefli í D-deildinni.
