Innlent

Sýknaður af nauðgun

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Vísir
Drengur um tvítugt var í Landsrétti í gær sýknaður af ákæru um nauðgun á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Ekki þótti sannað að ásetningur hefði staðið til verknaðarins. Einn dómari skilaði sératkvæði.

Í héraði hafði fjölskipaður dómur dæmt ákærða til tveggja ára fangelsisvistar og til að greiða stúlkunni 1,5 milljónir í miskabætur. Þar skilaði einn dómari sératkvæði sem var samhljóða meirihluta Landsréttar.

Drengurinn var átján ára og stúlkan sautján ára þegar atvikið átti sér stað árið 2016. Höfðu þau áður átt í sambandi en upp úr því flosnað. Þau ákváðu að sofa saman í tjaldi drengsins. Var hann ákærður fyrir að hafa á meðan á því stóð slegið hana ítrekað og stungið fingri í endaþarm hennar. Hlaut hún af þessu mikið mar víðsvegar um líkamann.

Ákærði bar því við að þau hefðu oft stundað gróft kynlíf og rætt saman um hvað þau vildu gera. Taldi hann að kynlífið í þetta skipti hefði verið vanalegt. Stúlkan sagði þetta hins vegar vera eins og að bera saman „gamnislag“ og hörku áflog.

Meirihluti Landsréttar taldi að í ljósi þess hvernig kynlífi þeirra hafði verið háttað áður væri ekki unnt að sakfella drenginn fyrir nauðgun. Í sérákvæði sagði að í ljósi áverka á stúlkunni hafi verið ljóst að hann hafi farið út fyrir mörk samþykkis hennar þrátt fyrir að fyrra kynlíf þeirra hafi verið gróft.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×