Í samtali við Vísi segir Gísla Gíslason, stjórnarformaður Spalar, að nú liggi fyrir samkomulag um endanlegt uppgjör vegna afhendingu ganganna. Í gær barst staðfesting þess efnis að Ríkisskattstjóri hafi staðfest skilning Spalar á meðferð á skattalegri afskrift ganganna þannig að tryggt er að engir bakreikningar berist Speli á næsta ári.
Því séu öll skilyrði fyrir hendi til þess að afhenda göngin og hætta innheimtu veggjalda.

Hlutverki Spalar er þó ekki alveg enn lokið því að eftir á að gera upp við þá viðskiptavini sem eiga inneign hjá félaginu en að sögn Gísla eru um 50 lyklar í umferð og tuttugu þúsund áskriftasamningar. Tíma taki að ljúka þeirri vinnu og bendir hann viðskiptavinum á að fara inn á heimasíðu Spalar þar sem nálgast má upplýsingar um það hvernig skila megi lyklum og sækja um endurgreiðslu.
Hvalfjarðargöngin voru opnuð árið 1998 og því tuttugu ár frá því að þau voru opnuð. Gísli segist vera ánægður með að geta skilað göngunum af sér á þessum tímapunkti.
„Satt og segja er þetta bara léttir. Þetta er gott. það er búið að vera langur gangur í þessu. Menn sögðu að tuttugu ár væri langur tími en nú eru þau liðin. Ótrúlegt en satt. Okkar er ekki lengur þörf.“