Fótbolti

„Fáránlegt“ að framlengja samning Southgate

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Southgate hefur gert vel með enska landsliðið
Southgate hefur gert vel með enska landsliðið vísir/getty
Það væri „fáránlegt“ fyrir enska knattspyrnusambandið að framlengja samning sinn við núverandi landsliðsþjálfara Gareth Southgate. Það segir Danny Murphy, fyrrum landsliðsmaður.

Murphy hefur snúið sér að sérfræðingsstörfum eftir að ferlinum lauk og hann ræddi mál Southgate á Sky Sports.

Southgate er með samning út EM 2020 en samkvæmt heimildum Sky eru viðræður hafnar á milli sambandsins og Southgate um framlengingu sem gildir út HM í Katar 2022.

Fyrrum miðjumaðurinn Murphy segir engan landsliðsþjálfara eiga að vera með svo langan samning.

„Hringurinn er alltaf sá sami í landsliðsþjálfun. Við verðum vongóð, allt er í blóma og svo koma tapleikir og markmið nást ekki. Þá þarf að borga risa fjárhæðir því þjálfarinn fékk heimskulega langan samning,“ sagði Murphy.

„Ég, sem fótboltamanneskja, sé rökhugsunina á bakvið það að semja við hann til 2022 en raunveruleikinn er sá að það er fáránlegt að gera það því ef honum mistekst þarf sambandið að eyða milljónum.“

„Þetta á ekki við bara um Gareth heldur alla landsliðsþjálfara.“

England fór í undanúrslit á HM í Rússlandi en tapaði fyrsta keppnisleik sínum eftir HM þegar liðið tapaði 1-2 á heimavelli fyrir Spánverjum í Þjóðadeildinni. Englendingar mæta Króötum 12. október ytra í næsta leik Þjóðadeildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×