Gamanleikarinn Bill Cosby hefur verið dæmdur í allt að tíu ára fangelsi. Cosby, sem er 81 ára gamall, mun þurfa að afplána að minnsta kosti þrjú ár í fangelsi en í mesta lagi tíu ár fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn þremur konum.
Auk þeirra þriggja sem sóttu hann til saka hafa á sjötta tug kvenna stigið fram og sakað hann um kynferðisofbeldi og óviðeigandi hegðun. Málið hefur vakið heimsathygli frá því fréttir af kynferðisglæpum Cosbys tóku að spyrjast út.
Réttarhöldin hafa staðið yfir í gær og í dag en dómur var kveðinn upp nú síðdegis. Cosby var í apríl fundinn sekur um að hafa byrlað þremur konum ólyfjan og brotið á þeim kynferðislega.
Skráður á lista yfir kynferðisglæpamenn
Auk þess að þurfa að afplána í fangelsi fyrir glæpi sína er hann skilgreindur sem ofbeldishneigður kynferðisglæpamaður. Þegar hann hefur lokið afplánun fer hann á lista yfir kynferðisglæpamenn og mun hann þurfa reglubundna ráðgjöf út ævina.
Cosby verður gert að láta ríkislögreglu vita þegar hann flytur sig um set auk þess sem honum verður gert að upplýsa nágranna sína og fólki í viðkomandi hverfi um að hann sé kynferðisglæpamaður. Skólayfirvöld og forsvarsmenn leikskóla verða jafnframt látnir vita hvar Cosby heldur til.
Sálfræðingurinn Kristen Dudley, sem fengin var til þess að meta geðheilsu Cosbys, sagði að hann hafi sýnt einhver merki um geðræn vandamál en jafnframt að hann væri líklegur til að brjóta aftur af sér.