Lífið

Reitir netverja enn og aftur til reiði með einkennilegri yfirlýsingu um þrælahald

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kanye West hefur vakið furðu með framkomu sinni undanfarin misseri.
Kanye West hefur vakið furðu með framkomu sinni undanfarin misseri. Getty/Randy Holmes
Rapparinn og athafnamaðurinn Kanye West, nýlega aðeins þekktur sem „Ye“, hefur enn og aftur reitt netverja til reiði með stuðningi sínum við Donald Trump Bandaríkjaforseta og „einkennilegum“ yfirlýsingum um fjögurra alda þrældóm svartra í Bandaríkjunum.

West birti í dag mynd af sér á Twitter-reikningi sínum þar sem hann hafði sett upp derhúfu með kosningaslagorði Trumps, „Make America Great Again“ eða „Gerum Bandaríkin stórkostleg á ný“ upp á íslensku. West hefur sett derhúfuna upp við önnur tilefni, nú síðast á sviði þáttarins Saturday Night Live líkt og greint var frá á Vísi í dag. Það er þó ekki aðeins derhúfan sem vakið hefur hneykslan netverja heldur einnig textinn sem West lét fylgja myndinni.

„Við munum útvega öllum sem losna úr fangelsi störf um leið og við afnemum þrettándu grein stjórnarskrárinnar,“ skrifaði West meðal annars. Þótti mörgum nóg um þar eð þrælahald var afnumið með þrettándu greininni.

West útskýrði þó mál sitt nokkru síðar í fleiri færslum á Twitter. Hann sagði þrettándu greinina „þrælahald í dulargervi“ og það hafi í raun aldrei verið afnumið almennilega. Þá dró hann nokkuð í land með fyrstu yfirlýsinguna og sagðist ekki vilja afnema greinina heldur „lagfæra“ hana.

Eins og áður sagði reitti West fjölda netverja til reiði, og það þrátt fyrir áðurnefndar útskýringar. Bandaríski leikarinn Chris Evans, sem fer með hlutverk Captain America í ofurhetjukvikmyndum Marvel, var á meðal þeirra sem lagði orð í belg eftir að West birti færslurnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem West er gagnrýndur fyrir ummæli sín um þrælahald. Í maí síðastliðnum gaf hann í skyn að þrælahald svartra í Bandaríkjunum hafi verið „val“. Hann hefur síðan beðist afsökunar á ummælum sínum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.