Í færslunni segir að framleiðsla kísilmálms í verinu fari fram í ljósbogaofni og mjög reglulega þurfi að tappa málmi úr ofninum. Við það verk sé notuð „svokölluð byssa“ til að opna aftöppunargatið. Í gær endurkastaðist kúla frá byssunni í upphandlegg starfsmannsins.
Líkt og greint var frá í gær var maðurinn fluttur með sjúkrabíl til Akureyrar. Í færslu PCC segir að hann hafi gengist undir aðgerð í gærkvöldi og gert er ráð fyrir að hann nái fullum bata. Þá hefur byssan verið tekin úr notkun á meðan rannsókn á atvikinu fer fram.
„Farið verður yfir alla verkferla og í framhaldinu ráðist í þær breytingar sem skoðun verkferlanna kann að leiða í ljós að þurfi að lagfæra til að auka öryggi enn frekar.“
Þá segir að ítarleg vinna varðandi viðbragðsáætlanir við slysum í kísilverinu hafi margborgað sig í kjölfar slyssins í gær og að viðbrögð starfsfólks hafi verið til fyrirmyndar.