Yfirvöld í Indónesíu hafa nú staðfest að alls 1234 hafi látist í jarðskjálftanum sem skók landið á föstudag.
Íbúar borgarinnar Palu, sem varð afar illa úti í jarðskjálftanum, eru orðnir óþreyjufullir eftir því að hjálpargögn berist þeim. Matar- og vatnsskortur er í borginni og vegna þess að vegir að henni skemmdust í skjálftanum er erfiðleikum bundið að bæta á birgðirnar.
Fréttamaður BBC sem er á staðnum, segir að lögregla hafi skotið viðvörunarskotum upp í loft og beitt táragasi gegn hópi fólks sem var að reyna að brjótast inn í verslun í borginni.
Enn er búist við að tala látinna muni hækka. Á meðal þeirra sem létust eru 34 indónesískir stúdentar sem fundust grafnir undir kirkju sem hrundi þegar aurskriða féll á hana.
Fréttin var uppfærð klukkan 07:52.

