Innlent

Stærðarinnar herskip við bryggju í Reykjavík

Samúel Karl Ólason skrifar
USS Iwo Jima við Skarfabakka.
USS Iwo Jima við Skarfabakka. Vísir/Vilhelm
Umfangsmiklar heræfingar Atlantshafsbandalagsins standa nú yfir á norðurslóðum. Herskipið Iwo Jima er nú við bryggju í Reykjavík en þar um borð er fjöldinn allur af landgönguliðum Bandaríkjahers sem tekur þátt í æfingunni.

Landgönguliðarnir munu æfa í Þjórsárdal í lok þessarar viku en æfingin hér á landi er hluti af stærri æfingu sem að mestu fer fram í Noregi og heitir Trident Juncture. Markmið æfinganna er að æfa flutning hersveita og einnig að kynnast íslenskum aðstæðum.

Landgönguliðar undirbúa æfinguna um helgina.Vísir/Viilhelm
USS Iwo Jima er ætlað til notkunar við innrásir í þá sérstaklega við að lenda hermönnum á ströndum og flytja hermenn til lands með þyrlum. Frá því það var tekið í notkun hefur það hins vegar verið notað við björgunarstörf og vann áhöfn þess til dæmis við björgunarstörf þegar fellibylurinn Katrina fór yfir Bandaríkin árið 2006.

Skipið ber um 1.700 landgönguliða. Iwo Jima er eitt af átta skipum sem tilheyra WASP-gerð þessara skipa. Það er 257 metra langt og 31,8 metrar að breidd.

Skipið var tekið í notkun árið 2001. Þar um borð eru þyrlur, svifnökkvar og ýmis annar búnaður.

Hér að neðan má sjá stutt myndband bandaríska sjóhersins sem sýnir starfsemi um borð í Iwo Jima. Þar að neðan má svo sjá myndir af skipinu við Skarfabakka.

-

Iwo Jima ber um 1.700 landgönguliða, þyrlur, svifnökkva og margt fleira. Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×