Skoðun

Hið ómögulega

Anna Lísa Björnsdóttir skrifar
Alþjóðlegur dagur tileinkaður missi á meðgöngu og barnsmissi er í dag, 15. október.

Gleym mér ei styrktarfélag hefur staðið fyrir minningarstund á hverju ári síðastliðin sjö ár. Þetta árið höldum við minningarstundir í Guðríðarkirkju og Glerárkirkju kl. 20. Að venju verður hægt að tendra ljós fyrir litlu börnin okkar og eiga fallegar stundir.

Gleym mér ei styrktarfélag var stofnað haustið 2013 af undirritaðri, Þórunni Pálsdóttur og Hrafnhildi Hafsteinsdóttur. Sameiginleg reynsla okkar af missi á meðgöngu færði okkur saman.

Missir á meðgöngu er oft einangrandi fyrir foreldra og nánustu aðstandendur – þessi sorg er oft erfið þeim sem ekki tengdust barninu á sama hátt og foreldrarnir, en langar til að veita foreldrum tilfinningalegan stuðning.

Það er til orð yfir börn sem missa foreldra, maka sem missa maka, en það er ekkert orð sem lýsir þeim sársauka að missa barn. Lin-Manuel Miranda notar orðið „ómögulegt“ (The unimaginable) þegar hann skrifar lag um sorg foreldra eftir barnsmissi í söngleik sínum.

Það er ómögulegt að setja sig í spor foreldra sem lifa börnin sín.

Gefa okkur tækifæri

Gleym mér ei hefur síðan haustið 2017 gefið foreldrum sem missa börn á meðgöngu eða skömmu eftir fæðingu minningarkassa. Þótt skrefin heim, tómhent af fæðingardeildunum, verði óendanlega þungbær hafa minningarkassarnir verið dýrmætir fyrir foreldra og systkini.

Foreldrar syrgja barnið sitt út lífið og eins mikið og við í Gleym mér ei vildum óska að það væri ekki þörf fyrir okkar félag, erum við afar þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum hvert af öðru.

Stuðningshóparnir okkar og minningarstundir gefa okkur tækifæri til að minnast barnanna okkar og njóta samvista við aðra foreldra með þessa þungbæru reynslu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×