Skoðun

Hlutverkaskipti

Óttar Guðmundsson skrifar
Um aldir voru lífskjör í hinni dönsku nýlendu, Íslandi með þeim lökustu í Evrópu. Verslunareinokun var ríkjandi, efnahagsleg stöðnun og úrræðaleysið algjört. Alþýðan var þraut­pínd, yfirvöld ströng og mönnum refsað grimmilega fyrir minnstu yfirsjónir. Ungbarnadauði var ávallt einn hinn hæsti í Evrópu og þjóðinni fjölgaði lítið sem ekkert um aldir. Náttúran var óblíð, vetur harðir og almættið sendi þjóðinni nokkur eldgos af einskærri gamansemi. Danir sem hingað komu lýstu yfir fyrirlitningu sinni á sóðaskap og annarri niðurlægingu þjóðarinnar. Íslendingar í Kaupmannahöfn urðu iðulega fyrir aðkasti reiðra Dana sem töldu þá afætur á samfélaginu.

Smám saman risu Íslendingar úr öskustónni og lífskjörin snarbötnuðu. Það fer vel á því að Íslendingar skuli með aukinni velsæld hafa skipt um hlutverk á leiksviði lífsins. Mikil efnahagsleg uppsveifla hefur skolað hingað erlendu verkafólki sem byggir hús, rekur hótel og afgreiðir í Kostkó. Í nýlegum sjónvarpsþáttum voru raktar dapurlegar reynslusögur nokkurra verkamanna sem báru innlendum yfirmönnum sínum og leigusölum illa söguna. Sagt var að menn kappkostuðu að sýna fólki hvar það ætti heima í þjóðfélagsstiganum. Erlent vinnuafl verðskuldaði ekki sömu kjör og innfæddir og gæti gert sér að góðu gömlu baðstofustemminguna þegar mikill fjöldi kúldraðist í kulda og trekki. Afkomendur þrautpíndrar íslenskrar alþýðu hafa nú haft hlutverkaskipti við fyrrum húsbændur sína. Þetta sýnir vel sveigjanleika, kraft og dug þjóðarinnar sem hefur tekist að kasta á ruslahauga sögunnar sögulegu hlutverki sínu en tekið upp siði og framkomu nýlenduherra. Hér rætast spádómar helgrar bókar að hinir síðustu skuli verða fyrstir.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×