Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti á fundi sínum á þriðjudag afgreiðslu skipulagsráðs þess efnis að tillaga að deiliskipulagi brúar yfir Fossvog verði auglýst. Í tillögunni er gert ráð fyrir um 270 metra langri brú yfir voginn frá Kársnesi, nánar tiltekið frá norðurenda Bakkabrautar að flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar.
Markmið tillögunar er að bæta samgöngutengingar milli Reykjavíkur og Kópavogs og styðja við vistvæna samgöngukosti. Brúin verður fyrir umferð gangandi, hjólandi og ein akrein fyrir almenningssamgöngur.
Hundruð íbúða byggð er í framkvæmd og á teikniborðinu á Kársnesi í framtíðinni en bryggjuhverfið er í mikilli uppbyggingu. Á svæðinu vestast á Kársnesi er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis, vistvænum samgöngum, verslun og þjónustu. Samhliða uppbyggingu verður reist brú fyrir gangandi, hjólandi og almenningsvagna yfir Fossvog sem tengja mun svæðið við háskólasvæði Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og miðbæ Reykjavíkur.
Í dag eru í megindráttum tvær leiðir fyrir fólk að komast akandi eða með strætó á milli Reykjavíkur og Kópavogs, annars vegar um stofnbraut í Fossvogsdal eða um Reykjanesbraut.