Erlent

Tyrkir segja upptökur sanna að sádiarabíski blaðamaðurinn hafi verið myrtur

Kjartan Kjartansson skrifar
Khashoggi er talinn hafa verið myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl.
Khashoggi er talinn hafa verið myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl. Vísir/EPA
Ríkisstjórn Tyrklands hefur sagt bandarískum embættismönnum að hún búi yfir hljóð- og myndupptökum sem sýni fram á að Jamal Khashoggi, sádiarabískur blaða- og andófsmaður, hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádí-Arabíu í Istanbúl.

Ekkert hefur spurst til Khashoggi frá því í síðustu viku. Hann hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum vegna gagnrýni sinnar á stjórnvöld í Ríad. Síðast sást til hans á leið inn á ræðismannsskrifstofuna í Tyrklandi þar sem hann er sagður hafa ætlað að afla sér skjala fyrir væntanlegt brúðkaup sitt.

Upptökur Tyrkja eru sagðar sýna að sádiarabískt öryggisteymi hafi tekið Khashoggi höndum á skrifstofunni á þriðjudag í síðustu viku. Sádarnir hafi síðan myrt blaðamanninn og bútað líka hans niður, að því er segir í frétt Washington Post. Khashoggi skrifaði meðal annars pistla fyrir bandaríska dagblaðið.

Það hefur eftir embættismönnunum að hljópupptakan innihaldi sérstaklega sannfærandi og hryllilegar sannanir fyrir því að útsendarar sádiarabískra stjórnvalda beri ábyrgð á dauða blaðamannsins.

„Maður heyrir röddina hans og rödd manna sem tala arabísku. Maður heyrir hvernig hann var yfirheyrður, pyntaður og síðan myrtur,“ hefur blaðið eftir einum embættismannanna.

Tyrkir sökuðu Sádiaraba fljótt um að bera ábyrgð á hvarfi Khashoggi. Washington Post segir að þeir hafi þó hikað við að gera upptökuna opinbera því þeir óttast að opinbera hvernig þeir njósna um erlend ríki í Tyrklandi.


Tengdar fréttir

Erdogan fylgist náið með máli blaðamannsins

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segist hafa verið farinn að fylgjast með máli blaðamannsins Jamal Khashoggi þegar fréttir þess efnis að hann hefði verið myrtur voru birtar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×