Skoðun

Laun í öðrum gjaldmiðli?

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson skrifar
„Það er glapræði að taka lán í annarri mynt en þeirri sem þú hefur tekjur í.“ Þessi orð heyrðust oft í kjölfar efnahagshrunsins þegar margir sáu lán sín tvöfaldast við hrun krónunnar. En er einhver munur á því í dag að taka lán í erlendri mynt og verðtryggðu íslensku krónunni?

Þegar krónan lækkar gagnvart helstu viðskiptamyntum þá hækkar innkaupsverð á neysluvörum þar sem nánast allt er innflutt. Allir sem koma að innflutningi og sölu á innfluttri neysluvöru á Íslandi hafa tól til að bregðast við slíkum sveiflum, þeir einfaldlega hækka verð sem um nemur og í leiðinni tekur verðtryggingin við sér og hækkar verðtryggð lán og leiguverð.

Það geta allir brugðist við nema hinn almenni launþegi. Hann getur ekki brugðist við sveiflum og „hækkað verð“ með litlum fyrirvara. Launin eru ekki verðtryggð.

Og hvað gerist þá? Kjarasamningar fara upp í loft með tilheyrandi átökum á milli hagsmunaaðilanna, launþega og atvinnurekenda.

Þetta er eins og vera með laun í öðrum gjaldmiðli.

Íslensk heimili eru spákaupmenn á gjaldeyrismarkaði og veðja stöðugt á að krónan styrkist. Spákaupmenn taka á sig mikla áhættu í von um mikinn gróða en líklegra er að þeir tapi. En í tilfelli íslensku heimilanna þá eru þau tilneydd í þessi viðskipti og þau tapa alltaf því aldrei hefur krónan styrkst til lengri tíma. Það má auðveldlega sjá á gengisþróun krónunnar frá upphafi.

Ef tekin væri upp erlend mynt, svo sem evra, þá myndu þessar sveiflur vera færðar frá hinum almenna launþega. Verð á neysluvörum yrði stöðugra og laun héldust í hendur við neysluverð og verðtryggingin hyrfi. Og átök á vinnumarkaði yrðu mun minni.

Af hverju eiga heimili, sem almennt eru áhættufælin, að taka á sig allar gjaldeyrissveiflur íslensku krónunnar?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×