Skoðun

Stéttastríð

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Svo sannarlega er það hlutverk verkalýðshreyfingar að beita sér fyrir því að leiðrétta kjör þeirra sem lægstu launin hafa. Mikilvægt er að slíkar kröfur séu raunhæfar svo þær komi að raunverulegu gagni. Þær mega ekki snúast í höndum þeirra sem setja þær fram og leiða til þess að staða fólks sem á að hjálpa verði í engu betri en hún var, jafnvel verri. Þetta verða nýir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar að hafa í huga. Þeir verða að hafa jarðsamband, en lifa ekki í draumórum um byltingu öreiganna og skjálfandi borgarastétt.

Nú er niðursveifla í þjóðfélaginu, fyrirtæki standa ekki jafn vel og áður og eru að draga saman seglin. Þau mega ekki við stórauknum launakostnaði. Aukin hætta er á að verðbólgan fari á skrið, nokkuð sem almenningur má vart hugsa til. Staðan er ofurviðkvæm, eins og flestum er ljóst. Samt ekki verkalýðshreyfingunni. Því miður ber á því að hún hafi mun meiri áhuga á að fara með frasa úr Kommúnistaávarpinu en sýna ábyrgð í kröfugerðum sínum. Þannig er úr hennar ranni hvað eftir annað talað af fyrirlitningu um borgarastétt og atvinnurekendur. Þetta er talsmáti gamals tíma sem runnið hefur sitt skeið. Ekki verður annað séð en að verkalýðsforingjarnir séu að eyða mikilli orku í tilraun til að vekja upp vofu kommúnismans, sem fólkið í landinu hefur engan áhuga á að leggja lag sitt við.

Það er óskandi að verkalýðsleiðtogar landsins átti sig á því að þjóðin er ekki á hnjánum grátbiðjandi um sósíalisma. Þeir eiga að hætta að stunda gamaldags baráttuaðferðir sem felast í því að skilgreina atvinnurekendur sem óvini fólksins. Þeir eru það ekki. Tilraunir til að koma á stéttastríði munu ekki takast. Almenningur er skynsamari en svo að hann láti etja sér út í slíkt.

Með því er ekki sagt að allt sé í himnalagi í íslensku þjóðfélagi. Það er ólíðandi að stór hópur fólks geti ekki keypt sér húsnæði og þurfi að sætta sig við að borga okurleigu í hverjum mánuði. Sömuleiðis er fólki ætlað að sætta sig við að vextir í landinu eru alltof háir. Óþolandi er svo að horfa upp á fólk, sem er á himinháum launum, taka sér ofurbónusa án þess að blikna. Þar fer lítið fyrir samfélagsábyrgð en græðgin og skortur á sómakennd fer ekki framhjá neinum.

Hið sameiginlega markmið allra, þar á meðal atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar, hlýtur að vera að verðbólgudraugurinn fari ekki á stjá með tilheyrandi hörmungum fyrir almenning í landinu. Sömuleiðis að atvinnuleysi fari ekki vaxandi. Í þessum málum hefur verkalýðshreyfingin ekki efni á að sýna kæruleysi, en því miður virðist hún einmitt vera að koma sér í þær stellingar. Hún setur fram óraunhæfar kröfur og ætlar í ofsafengið stéttastríð. Tilgangurinn virðist vera að valda sem mestum usla í þjóðfélaginu. Vitanlega er þjóðin ekki spurð hvað hún vill. Hinir byltingarsinnuðu verkalýðsleiðtogar eru svo sannfærðir um málstaðinn að þeim er nákvæmlega sama um vilja hennar. Satt best að segja verður ekki séð að hin nýja verkalýðsforysta sé að vinna þjóðinni mikið gagn.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×