Guðmundur Þórarinsson var í vængbakverðinum er Norrköping vann 4-2 sigur á Östersunds á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Norrköping eltir AIK eins og skugginn á toppi deildarinnar. Guðmundur og félagar eru í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir AIK, sem á þó leik til góða. Norrköping á þrjá leiki eftir í deildinni.
Kristján Flóki Finnbogason spilaði allan leikinn og nældi sér í gult spjald er Brommapojkarna tapaði 4-2 fyrir Sirius í fallbaráttuslag í sömu deild.
Brommapojkarna er í fimmtánda sæti deildarinnar, með tuttugu stig. Dalkurd er sæti ofar með jafn mörg stig en fjórtánda sætið fer í umspil en það fimmtánda fer beint niður í B-deildina.
