Skoðun

Afhöfðanir

Óttar Guðmundsson skrifar
Í Bjarnar sögu Hítdælakappa er sagt frá ástar- og afbrýðisemiþríhyrningi hans sjálfs, Oddnýjar eykindils og eiginmanns hennar, Þórðar Kolbeinssonar. Eftir mikil átök drepur hinn kokkálaði Þórður Björn eljara sinn. Heiftin var svo mikil að hann hjó af honum höfuðið. Móðir Björns var kvenhetja og sagði þegar hún sá afhoggið höfuð sonar síns: Farðu og færðu Oddnýju höfuðið og henni mun þykja það betra en hið litla og vesæla er lafir á þínum hálsi! Þórður fór þá til konu sinnar og sagði henni fall Bjarnar. Sagan fékk hörmulegan endi. Oddný missti vitið og lagðist í stjarfaþunglyndi. Þórður fékk mikið ámæli og fjársektir. Sannaðist hið fornkveðna: Dramb er falli næst.

Þessi saga rifjaðist upp þegar krónprinsinn í Sádi-Arabíu sendi flokk manna til að höggva höfuðið af andstæðingi sínum. Sádar neituðu allri ábyrgð en viðurkenndu loks að maðurinn hefði misst höfuðið í slagsmálum á ræðismannsskrifstofu. (!!)

Sádar eru ríkasta þjóð í heimi. Í skjóli olíuauðæva hafa þeir getað haldið uppi fornfálegu stjórnarfari, kvenfyrirlitningu, feðraveldi og fullkominni lítilsvirðingu á mannréttindum. Stórveldin hafa snobbað fyrir ríkidæminu og selt þeim vopn og lúxusvarning. Nýjasta ofbeldisverk þeirra sýnir þó að margur verður af aurum api, svo heimskulegur er verknaðurinn. Nú er að sjá hvort hið afhöggna höfuð verður krónprinsinum jafn dýrt og höfuð Hítdælakappans varð Þórði Kolbeinssyni. Vonandi átta þjóðir heimsins sig á því að hinir kuflklæddu prinsar eru ekkert annað en ótíndir götustrákar sem telja sig komast upp með allt vegna ríkidæmis föður síns.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×