Erlent

Kallaði sessunaut sinn „ljóta svarta skepnu“

Sylvía Hall skrifar
Maðurinn kallaði konuna meðal annars „ljóta belju“.
Maðurinn kallaði konuna meðal annars „ljóta belju“. Skjáskot
Maður um borð í flugi Ryanair hefur verið tilkynntur til lögreglu eftir að hann áreitti sessunaut sinn, konu á áttræðisaldri, í flugi frá Barcelona til Stansted-flugvallar í London. Maðurinn neitaði að sitja í sömu sætaröð og konan af þeirri ástæðu að hún er svört.

Atvikið náðist á myndband og hefur það fengið hátt í tvær milljónir áhorfa síðan það var birt á Facebook á föstudag.





Maðurinn mótmælir sessunaut sínum harðlega og kallar hana meðal annars „ljóta svarta skepnu“. Þegar konan svarar manninum kallar hann hana „ljóta belju“ og bannar henni að tala við sig á öðru tungumáli. Þá skipar hann henni að færa sig um sæti annars muni hann færa hana persónulega.

Flugþjónn býður konunni að færa sig um sæti sem hún í fyrstu hafnaði áður en hún þáði boðið og settist hjá dóttur sinni á öðrum stað í vélinni. Þegar konan hafði fært sig róaðist maðurinn en farþegar spurðu hvers vegna maðurinn hafði ekki verið fjarlægður úr fluginu.

Konan er af Windrush kynslóðinni, afkomandi innflytjenda sem fluttust til Bretlands eftir stríð. Hún hafði verið í fríi til þess að ná áttum eftir andlát eiginmanns síns að sögn dóttur hennar.

„Atvikið hefur verið tilkynnt til lögreglunnar í Essex og við getum ekki tjáð okkur frekar, þetta er á borði lögreglu núna,“ staðfesti Robin Kiely, yfirmaður samskiptamála hjá Ryanair í samtali við Buzzfeed.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×