Skoðun

Viðvörun

Hörður Ægisson skrifar
Vaxtahækkun peningastefnunefndar Seðlabankans í vikunni átti ekki að koma neinum á óvart. Nefndin taldi, réttilega eða ranglega, að hún ætti engra annarra kosta völ en að sýna tennurnar. Trúverðugleiki hennar væri að öðrum kosti undir. Bankinn hefur það lögboðna hlutverk að halda verðbólgu um eða undir 2,5 prósentum, sem tókst samfleytt í meira en fjögur ár, en á mjög skömmum tíma hafa hins vegar verðbólguhorfur farið hratt versnandi, þróun sem peningastefnunefndin hefur metið að hún gæti varla litið fram hjá. Fátt virðist geta komið í veg fyrir að vextirnir muni hækka enn frekar á næsta ári.

Ákvörðun um hækkun vaxta er sjaldnast til þess fallin að vekja sérstakar vinsældir. Svo var auðvitað ekki heldur í þetta sinn. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa sagt vaxtahækkun Seðlabankans fela í sér stríðsyfirlýsingu. Þeir hafa hins vegar því miður kosið að líta ekki í eigin barm og hvort herskár málflutningur stéttarfélaganna, ásamt þeim óraunhæfu kröfum sem kynntar hafa verið úr þeim herbúðum, kunni að hafa verið orsakavaldur að baki hækkandi verðbólguvæntingum síðustu vikna og mánaða sem aftur réð hvað mestu um vaxtahækkunina. Fyrir flesta er svarið augljóst. Það er rétt sem bent hefur verið á að kröfugerð verkalýðsfélaganna er um margt ósamrýmanleg – lægri vextir og gríðarlegar nafnlaunahækkanir – og afleiðingarnar yrðu, eins og reynslan ætti að hafa kennt Íslendingum, stórfelld verðbólga og í kjölfarið skuldakreppa hjá mörgum heimilum.

Færa má fyrir því rök að gengisveiking krónunnar að undanförnu, sem hefur auðvitað ekki hvað síst stafað af óvissu um stöðuna á vinnumarkaði og miklum rekstrar­erfiðleikum WOW air, hafi verið meiri en ella sökum ákvörðunar Seðlabankans að viðhalda stífari innflæðishöftum en nauðsyn hefur krafist. Það var því fagnaðarefni þegar bankinn tilkynnti um losun þeirra með því að lækka bindiskyldu á innflæði erlends fjármagns úr 40 prósentum í 20 prósent. Þótt setning innflæðishaftanna hafi verið réttlætanleg sumarið 2016, samtímis því að skref voru tekin til að takast á við aflandskrónu­stabbann, þá hefur öllum mátt vera ljóst að aðstæður til að rýmka höftin hafa fyrir margt löngu verið fyrir hendi. Flest bendir til þess að fjármagnsinnflæði í íslensk skuldabréf við þá breytingu sem Seðlabankinn hefur gert á höftunum verði hverfandi ef nokkuð. Seðlabankastjóri hefur sagt tilefni til að slaka enn frekar á þeim á næstunni og það hlýtur því aðeins að vera tímaspursmál hvenær gengið verði enn lengra og þau afnumin að fullu. Hagkerfið þarf á auknum erlendum fjárfestingum að halda.

Ísland stendur á krossgötum. Raunvextir Seðlabankans hafa lækkað um tvær prósentur – úr þremur prósentum í liðlega eitt prósent – á innan við tveimur árum. Þessi lækkun, sem kemur til bæði vegna sögulega lágrar verðbólgu og lækkandi nafnvaxta, hefur skilað almenningi miklum kjarabótum. Forsendur til að halda áfram á sömu braut eru til staðar. Þar skiptir mestu jákvæð eignastaða við útlönd, áframhaldandi sparnaðarhneigð heimila og fyrirtækja, minnkandi skuldir innlendra aðila og að langtíma verðbólguvæntingar hækki ekki frekar frá því sem nú er. Allir vita hins vegar hvar stóra óvissan liggur. Seðlabankinn hefur núna sent frá sér viðvörun til aðila vinnumarkaðarins. Vonandi verður mark á henni tekið.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×