Enski boltinn

„Fergie-time“ hugarfarið komið aftur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Smalling í baráttunni við Callum Wilson um helgina
Smalling í baráttunni við Callum Wilson um helgina Vísir/Getty
Chris Smalling segir lið Manchester United hafa fundið aftur hugarfarið sem einkenndi liðið undir stjórn Sir Alex Ferguson. United kom til baka gegn Bournemouth um helgina og skoraði sigurmark í margnefndum „Fergie-tíma.“

Fá lið virðast kunna eins vel að koma til baka og vinna leiki eftir að hafa verið undir eins og Manchester United. Ekkert lið hefur náð í eins mörg stig og United eftir að hafa verið undir á tímabilinu til þessa.

Marcus Rashford skoraði sigurmarkið í Bournemouth á 92. mínútu. Undir stjórn Sir Alex var eitt af einkennismerkjum United að liðið gafst aldrei upp og sigurmörk á lokamínútunum voru svo algeng að uppbótartíminn fékk viðurnefnið Fergie-tíminn.

„Við erum farnir að sína þetta hugarfar aftur, að gefast aldrei upp, og það er að skila sér,“ sagði Smalling. Hann var keyptur til United af Ferguson og spilaði síðustu ár Skotans á Old Trafford.

„Sama hversu slæmur fyrri hálfleikurinn var þá trúðum við allir að við gætum komið til baka í seinni hálfleik og unnið leikinn.“

„Eftir því sem leikirnir verða erfiðari þá eru þeir jafnari en nokkru sinni fyrr. Oft á tíðum ræður það úrslitum hver getur fundið eitthvað smá auka á síðustu mínútunum. Við munum vinna mörg stig á því.“

United á erfiða viku fram undan, liðið ferðast til Ítalíu og mætir Juventus í Meistaradeild Evrópu á miðvikudag og mætir svo nágrönnunum í Manchester City í stórleik í úrvalsdeildinni á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×