Lífið

Ariana Grande gefur út óð til sjálfsástar og fyrrum kærasta

Sylvía Hall skrifar
Söngkonan minnir aðdáendur sína á að ekkert ástarsamband er sterkara en það sem maður á við sjálfan sig.
Söngkonan minnir aðdáendur sína á að ekkert ástarsamband er sterkara en það sem maður á við sjálfan sig. Vísir/Getty
Eftir röð tísta í gærkvöldi gaf Ariana Grande út sitt nýjasta lag sem má lýsa sem óði til fyrrverandi kærasta söngkonunnar. Titill lagsins er á meðal tísta sem hún birti í gærkvöldi í tengslum við sambandsslit sín og Pete Davidson en það heitir „Thank u, next“.

Í texta lagsins gerir Grande upp sín fyrri sambönd við við kærasta á borð við rapparann Big Sean, Ricky Alvarez, Mac Miller og nú fyrrverandi unnusta sinn Pete Davidson. Textinn þykir fallegur og einlægur en hún talar um þann lærdóm sem hún hefur dregið af hverju sambandi.

Hún talar um hversu nálægt því hún var að giftast grínistanum Pete Davidson en þau slitu trúlofun sinni nú fyrir skömmu. Í textanum segist hún vera þakklát fyrir Davidson en þau voru góðir vinir fyrir ástarsamband þeirra sem var ansi ástríkt á meðan því stóð.

Davidson og Grande slitu trúlofun sinni í október.Vísir/Getty

Falleg kveðja til Mac Miller

Það var mikið áfall fyrir söngkonuna þegar hennar fyrrverandi kærasti, rapparinn Mac Miller, lést úr of stórum skammti í september síðastliðnum. Þau voru saman í tvö ár og slitu sambandi sínu í maí á þessu ári og sögðu margir aðdáendur rapparans Grande bera ábyrgð á dauðsfallinu.

Sjá einnig: Sleit sambandinu vegna fíknivandans: Aðdáendur Mac Miller herja á Ariönu Grande eftir dauðsfallið

Söngkonan tjáði sig á samfélagsmiðlum eftir andlát Miller og birti meðal annars myndband af honum þar sem hún segir hann vera sinn allra besta vin og að hún hafi dýrkað hann og dáð frá fyrsta deginum sem þau hittust.





Í laginu segist hún óska þess að geta þakkað honum fyrir allt og segir hann vera engil og hafa margir aðdáendur tjáð ánægju sína með að heyra söngkonuna heiðra minningu hans á þennan hátt. 

Mac Miller og Ariana Grande á góðri stundu. Miller lést í september úr of stórum skammti aðeins fjórum mánuðum eftir sambandsslit þeirra.Vísir/Getty

Segir mikilvægast að elska sjálfa sig

Eins og gefur að skilja hefur söngkonan gengið í gegnum erfiða tíma síðustu tvö ár og á það ekki einungis við um ástarlíf hennar. Þann 22. maí 2017 var gerð hryðjuverkaárás á tónleika hennar í Manchester í Englandi þar sem 22 létu lífið, margir hverjir ungir aðdáendur söngkonunnar. Hún greindi frá því í viðtali við breska Vogue í sumar að hún þjáðist af áfallastreituröskun eftir hryðjuverkaárasirnar í Manchester.

Eftir erfitt ár virðist söngkonan ætla taka sér tíma til þess að vinna í sjálfri sér og setja sig í fyrsta sæti. Hún segist hafa eignast nýja ást í lífinu og á þar við um sjálfa sig. Á meðan hennar fyrri ástarsambönd hafa fjarað út veit hún fyrir víst að það samband sem hún á við sig sjálfa mun endast að eilífu. 



„Hún kenndi mér að elska. Hún kenndi mér þolinmæði og tekst á við sársaukann. Það er magnað,“ segir í texta lagsins.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×