Skoðun

Feðraveldið

María Bjarnadóttir skrifar
Feðraveldi er ferlegt orð. Bæði vegna þess sem það stendur fyrir, en líka vegna þess hversu illa það lýsir því sem það þýðir. Feðraveldi er þýðing á enska hugtakinu patriarchy. Það er til betri þýðing. Kynjakerfi.

Kynjakerfi er kerfið sem hefur valdið því að karlar; menn og drengir, hafa ekki alist upp við að tala um tilfinningar sínar, heldur að harka af sér. Það hefur viðhaldið stöðluðum ímyndum um karlmennsku sem birtist til dæmis í því að fjölmiðill gerir lítið úr mínum uppáhalds Króla sem opinberar tilfinningar sínar þegar hann talar um ofbeldi gegn konum, í stað þess að fjalla um samfélagsmeinið sem hann táraðist yfir.

Þetta kynjakerfi hefur sætt nokkrum barsmíðum, lengst af aðallega af hálfu kvenna og femínista. Megintilgangur barningsins hefur verið að búa til svigrúm fyrir konur í samfélaginu til jafns við karla, losa þær undan ofbeldi sem hefur verið samofið samfélagsgerðum og vinna að því að upplifanir kvenna verði metnar til jafns við karla. Til dæmis með að borga þeim sömu laun fyrir sömu störf. Sannarlega byltingarkennt.

Kynjakerfið heldur aftur af okkur öllum og það eru ekki bara konur sem njóta ágóðans af því að það kvarnist upp úr því. Það gera þau sem finna sig ekki í hinum hefðbundna tvískipta heimi karla og kvenna sem gerir tortryggilegt að fólk upplifi sig fyrst og fremst sem einstaklinga, en ekki kyn. Konur sannarlega. En það gera líka karlar; strákar og menn. Kynjakerfið er ímyndað kerfi sem setur upp raunverulegar hindranir og óþolandi takmarkanir. Er ekki kominn tími á að smalla það bara?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×