Skoðun

Hvert er siðferði Háskóla Íslands?

Jóna Þórey Pétursdóttir skrifar
Háskóli Íslands hefur tekið þátt í umdeildum rannsóknum sem beinast gegn einhverjum viðkvæmasta hópi samfélagsins á undanförnum árum. Innan veggja HÍ hafa farið fram tanngreiningar á hælisleitendum til þess að ákvarða aldur þeirra og hefur Útlendingastofnun nýtt niðurstöðurnar til ákvörðunar um hvort viðkomandi fái hæli hérlendis.

Í október 2017 birtist frétt í Stundinni um að 17 ára fylgdarlaust barn var metið fullorðið hér á landi með tanngreiningar rannsókn. Slík ákvörðun hefur afdrifaríkar afleiðingar þar sem barnið fær ekki þá vernd sem það á rétt á. Háskóli Íslands virðist vera tilbúinn til að setja nafn sitt við þessar rannsóknir en verið er að undirbúa þjónustusamning við Útlendingastofnun um að tanngreiningar fari fram til frambúðar innan veggja skólans.

Hvert er siðferðið innan HÍ hvað þetta varðar? Hvers vegna tekur menntastofnun þá ákvörðun að taka þátt í jafn umdeildum rannsóknum sem beinast að jafn viðkvæmum hópi? Svo ekki sé minnst á siðferði Útlendingastofnunnar sem notast við tanngreiningar til aldursgreiningar hælisleitenda eða þá staðreynd að gerð er krafa um aldur en ekki einfaldlega stöðu viðkomandi við þessa ákvörðunartöku. Háskólinn hefur samþykkt vísindasiðareglur sem m.a. skyldar rannsakendur til að gæta þess að skaða ekki hagsmuni fólks í erfiðri stöðu. Þrátt fyrir það virðist HÍ ákveðinn í að þjónusta Útlendingastofnun með þessum hætti.

Háskóli Íslands fyrirmyndarstofnun?

Stúdentaráð HÍ ályktaði einróma gegn því að skólinn tæki þátt í þessum rannsóknum. UNICEF og Rauði krossinn hafa gefið út yfirlýsingar gegn tanngreiningum. Á fundi Stúdentaráðs HÍ bókaði ég þá skoðun að HÍ væri sjálfstæður í sínum ákvörðunum um hvers konar rannsóknir fari fram innan veggja skólans, enda kemur það fram í lögum og frumvarpi til laga um háskóla. HÍ getur ekki haldið því fram að Útlendingastofnun eða nokkur opinber aðili geti sagt þeim fyrir um hvaða starfsemi skuli fara fram innan skólans eða með hvaða hætti. Sú ákvörðun að veita aðstöðu fyrir aldursgreiningar hælisleitenda með tanngreiningum skrifast á stjórnvöld skólans.

Vill Háskóli Íslands ekki vera til fyrirmyndar í mannúðarstefnu? Vill HÍ ekki sýna gott siðferðislegt fordæmi og taka vel á móti þeim sem leita til Íslands? Stúdentar vilja vera stoltir af þeirri menntastofnun sem þeir kjósa að tilheyra. Það er miður að HÍ leggi nafn sitt við þessar rannsóknir og rýri orðspor skólans. Rannsóknirnar hafa afdrifarík áhrif á börn og ungmenni og þegar hælisleitandi er barn, en álitið fullorðið í gildandi lagaumhverfi á Íslandi, geta afleiðingarnar orðið alvarlegar fyrir barnið og verða ekki teknar til baka. Er HÍ tilbúinn að standa fyrir því?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×