Bíó og sjónvarp

Strákurinn úr Jurassic Park leikur í einni af vinsælustu myndunum í dag

Atli Ísleifsson og Birgir Olgeirsson skrifa
Joseph Mazzello í Jurassic Park.
Joseph Mazzello í Jurassic Park. Universal Pictures.
Kvikmyndin Bohemian Rhapsody, sem fjallar um bresku hljómsveitina Queen, heldur áfram að njóta vinsælda um heim allan og hefur í dag þénað um 300 milljónir dollara í miðasölu kvikmyndahúsa. Rami Malek hefur hlotið mikið lof fyrir túlkun sína á Freddie Mercury sem var stjarna hljómsveitarinnar en minna hefur farið fyrir umfjöllun um þá sem leika hina meðlimi sveitarinnar.

Þar á meðal er leikarinn Joseph Mazzello en hann lék á sínum tíma í einni vinsælustu kvikmynd sögunnar.

Mazzello þessi er 35 ára gamall en níu ára gamall lék hann Tim Murphy í Steven Spielberg-myndinni Jurassic Park.

Á eftir þeirri mynd sást hann í The River Wild, framhaldi Jurassic Park og The Social Network svo dæmi séu tekin. Nýjasta myndin hans er hins vegar Bohemian Rhapsody þar sem hann leikur hinn hægláta bassaleikara Queen, John Deacon.

Deacon ber ábyrgð á nokkrum af stærstu smellum Queen. Hann samdi You´re My Best Friend, Another One Bites the Dust og I Want to Break Free.

Hann, eins og svo margir, var afar sorgmæddur þegar Freddie Mercury lést úr alnæmi í nóvember árið 1991. Varð sú harmafregn til þess að hann ákvað alfarið að segja skilið við tónlist í atvinnuskyni.

Í viðtali við The Bassist árið 1996 sagðist hann ekki sjá nokkra ástæðu til að halda áfram með Queen, engin gæti fyllt skarðið sem Mercury skildi eftir.

Hann spilaði þrisvar með Queen eftir fráfall Mercury, á minningartónleikum um söngvarann árið 1992, á góðgerðatónleikum með Roger Taylor árið 1993 og á sýningu Bejart-balletsins í París árið 1997 þar sem hann flutti lagið The Show Must go On með Elton John.

Deacon hefur heldur ekki verið sáttur við hvernig Roger Taylor, trommuleikari Queen, og Brian May, gítarleikari sveitarinnar, hafa farið með Queen-arfinn.

Taylor og May ákváðu að hljóðrita Queen-lagið We Are the Champions með breska söngvaranum Robbie Williams árið 2001 fyrir kvikmyndina A Knights Tale.

Þeir báðu Deacon að vera með en hann sagðist vera hættur og viðurkenndi seinna meir að hann hefði verið dauðfeginn að hafa tilkynnt þeim það.

„We Are The Champions er eitt af bestu lögum sögunnar en ég held að þeir hafi eyðilagt það. Ég vil ekki vera andstyggilegur, en látum nægja að segja að Robbie Williams er enginn Freddie Mercury.“

Hann hefur reynt að forðast sviðsljósið eins og heitan eldinn í gegnum tíðina en er þó iðulega stöðvaður út á götu af aðdáendum sveitarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.