Fjallað er um málið á vef Guardian og vísað í ítarlega úttekt New York Times um hvernig Facebook hefur tekist á við vandamálin sem blasað hafa við fyrirtækinu undanfarin misseri.
Soros er fjárfestir og gyðingur. Hann hefur löngum orðið verið hluti af ýmsum andgyðinglegum samsæriskenningum en á sama tíma og Facebook var að reyna að grafa undan gagnrýnendum með að tengja þá við Soros var miðillinn að berjast gegn andgyðinglegum áróðri sem birtist á Facebook.
Spjótin fóru ekki hvað síst að beinast að Facebook vegna áhrifa Rússa á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016 þar sem auglýsingar á samfélagsmiðlinum voru nýttar.
Dreifðu neikvæðum greinum um Apple og Google
Facebook leitaði til ráðgjafafyrirtækisins Definers Public Affairs vegna þeirrar gagnrýni sem beindist að miðlinum í tengslum við Rússa og forsetakosningarnar. Ein aðferðin sem Definers Public Affairs beitti var að birta tugi neikvæðra greina um önnur tæknifyrirtæki á borð við Google og Apple.Önnur aðferð var svo að setja Soros í hlutverk þess sem var í forsvari fyrir ófræginarherferð gegn Facebook.
Definers Puclic Affairs kom þannig skjali í umferð sem tengdi Soros við umfangsmikla ófræginarherferð gegn samfélagsmiðlinum og hvatti blaðamenn til þess að kanna fjárhagsleg tengsl á milli Soros og hópa á borð við Freedom from Facebook og Color of Change.
Soros hefur, eins og áður segir, gjarnan orðið fyrir barðinu á samsæriskenningum.
Samsæriskenningarnar náðu einhvers konar hámarki í vikunum fyrir þingkosningarnar í Bandaríkjunum í byrjun mánaðarins þegar því var ranglega haldið fram að Soros stæði á bak við fjölda innflytjenda frá Mið-Ameríku sem væru að reyna að komast inn til Bandaríkjanna yfir landamærin í Mexíkó.