Creditinfo veitti í dag framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar vegna síðasta árs. Á listanum eru 857 fyrirtæki eða 2% allra fyrirtækja hér á landi. Samherji trónir á toppnum líkt og í fyrra og þar á eftir koma Marel, Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaál. Nox Medical fékk sérstaka viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki í nýsköpun.
Nox Medical er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu lækningatækjum og á búnaði til svefnrannsókna. Starfsmenn Nox Medical eru um fimmtíu, velta fyrirtækisins er nálægt 14 milljónum evra, jafnvirði 2 milljarða króna, og eru vörur þess notaðar á mörgum af virtustu sjúkrahúsum í heimi.

Í ágústhefti National Geographic er ítarleg umfjöllun um svefn og þar kemur fram að árlegur kostnaður bandarísks samfélags af skertum svefni fólks sé 411 milljarðar dollara.
„Það kemur fram í rannsókninni að kostnaður annarra samfélag sé ámóta og kostnaður Bandaríkjanna og ég hef enga ástæðu til að ætla að við Íslendingar séum eitthvað betri í því en Bandaríkjamenn að skerða svefngæðin okkar. Ef við veltum þessu upp á íslenskan veruleika þá má komast að þeirri niðurstöðu að heildarkostnaður íslenska samfélagsins sé um 55 milljarðar króna á ári vegna afleiddra afleiðinga af skertum svefngæðum eða lélegri svefnheilsu,“ segir Pétur Már.