Hamrén var í ítarlegu viðtali við Guðmund Benediktsson úti í Belgíu þar sem liðið undirbýr sig fyrir lokaleikinn í Þjóðadeildinni gegn heimamönnum í kvöld.
Landsliðið hefur enn ekki unnið leik undir Hamrén, en andstæðingarnir hafa verið bestu þjóðir Evrópu. Er hann bjartsýnn á framhaldið, undankeppni EM 2020 sem hefst í mars?
„Ef þessi meiðslavandræði halda áfram verður þetta að sjálfsögðu erfitt, erfiðara en ég hélt,“ sagði Hamrén.
„Það er stór áskorun að reyna að komast inn á lokamót í þriðja skipti í röð, en ég vona að það versta sé að baki. Það verða alltaf einhver meiðsli en vonandi ekki svona mörg.“
„Sem landsliðsþjálfari þá getur þú ekkert gert í meiðslunum. Sem þjálfari félagsliðs getur þú skoðað hvort það sé eitthvað á æfingunum sem veldur auknum meiðslum í hópnum, landsliðsþjálfari getur ekki gert það.“
Aron Einar Gunnarsson er mættur aftur í landsliðshópinn eftir meiðsli, í fyrsta skipti síðan Hamrén tók við.
„Ég hef séð hann spila og hef heyrt mikið frá leikmönnunum í hópnum um hversu mikil áhrif hann hefur á liðið. Nú þegar ég hef hitt hann og talað við hann þá skil ég hvað þeir áttu við.“
„Við þurfum á honum að halda.“
Allt viðtalið má sjá hér að neðan þar sem Hamrén ræðir meðal annars fyrstu mánuðina í starfi landsliðsþjálfara Íslands.